Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð áforma að koma á laggirnar stafrænum Covid-19 bólusetningarpassa sem notaður verður fyrir samkomur þar sem fleiri en 100 koma saman. Útlit er fyrir að reglur um passann taki gildi 1. desember næstkomandi.
Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, sagði í gær að Svíar gerðu ráð fyrir því að smitum myndi fjölga í vetur. Þá bætti hún því við að Svíþjóð væri ekki „einangruð frá hinum löndum heimsins.“
Faraldurinn hefur verið á verulegri uppleið í Evrópu undanfarið, til dæmis hér á Íslandi þar sem smitum hefur fjölgað mikið. Þau hafa verið um og yfir 100 daglega síðan í byrjun mánaðar. Suma daga hafa greind dagleg smit verið nær 200 talsins.
Staðan er skárri í Svíþjóð þar sem smittölur hafa verið nokkuð lágar undanfarið. Nýgengni smita á hverja 100.000 íbúa sl. 14 daga þar stendur í 85,8 en 562,3 á Íslandi. Staðan er því tæplega sjö sinnum verri á Íslandi.
Hér á landi er fyrirkomulagið um fjöldasamkomur þannig að 500 mega koma saman ef allir gestir, fæddir 2015 og fyrr, framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst og er tekið á viðurkenndum stöðum.
Í Svíþjóð verður krafa gerð um að þau sem náð ákveðnum aldri, sem hefur ekki verið ákveðinn en verður líklega 16 eða 18 ár, beri bólusetningarpassann á ýmsum viðburðum, t.d. tónleikum, í leikhúsum og á íþróttaviðburðum en ekki veitingastöðum og krám.