Ástandið í Austurríki „alls ekki gott“

Marta Kristín Friðriksdóttir, klassísk söngkona búsett í Vínarborg.
Marta Kristín Friðriksdóttir, klassísk söngkona búsett í Vínarborg. Ljósmynd/Aðsend

Marta Kristín Friðriksdóttir er klassísk söngkona búsett í Vínarborg en þar er hún í meistaranámi í óperusöng við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Að sögn Mörtu er ástandið í Austurríki alls ekki gott. 

Stjórnvöld þar í landi hafa tekið ákvörðun um að útgöngubann taki gildi á mánudag. Þá mun bólusetning við Covid-19 verða skylda með lögum frá og með 1. febrúar 2022.  

Marta segir nýju takmarkanir koma til með að hafa töluverð áhrif á sig. Þannig munu til dæmis allir hóptímar og fyrirlestrar í skólanum vera færðir aftur á netið. Áfram verði þó hægt að mæta í einkatíma í persónu en þá þurfi nemendur að halda tveggja metra fjarlægð, mæta með nýlegt PCR próf og standa fyrir aftan plastvegg sem aðskilur nemendurna frá kennaranum.

„Allir tónleikar munu til dæmis falla niður næstu vikurnar og eins allar óperusýningar. Einnig verður veitingastöðum, söfnum, líkamsræktum, leikhúsum og verslunum (öðrum en matvöruverslunum og apótekum) lokað,“ segir Marta.

„Eina sem ég þarf að gera er að hafa það notalegt heima hjá mér“

Marta segir fólk hafa brugðist mjög mismunandi við fréttum af þessu nýtilkynnta útgöngubanni. „Ég get auðvitað ekki talað fyrir neinn nema sjálfa mig, en að mínu mati var þetta það eina sem hægt var að gera í ljósi þess hve slæm staðan var orðin,“ segir Marta og bætir við:

„Það er auðvitað erfitt, pirrandi, leiðinlegt og þreytandi að vera skikkaður í útgöngubann og fá ekki að lifa lífinu eins og maður vill en á sama tíma er það auðveldast í heimi. Að leggja sitt af mörkum til að vonandi komast hjá því að smitast eða smita einhvern annan af Covid-19 og eina sem ég þarf að gera er að hafa það notalegt heima hjá mér næstu vikur.“

Marta segir marga hafa átt von á útgöngubanninu þar sem að smitum þar í landi hefur fjölgað mjög mikið síðastliðnar vikur. „Ég held meira að segja að mörgum hafi verið létt og vonandi tekst að ná stjórn á faraldrinum núna hér í Austurríki,“ bætir Marta við.

Ríkisstjórnin lengi að taka almennilega á þessu

Hjörtur Hjörleifsson, tónlistarmaður í hljómsveitinni Oehl, er eins og Marta, búsettur í Vínarborg. Hann segir fólkið í borginni vera að búa sig undir útgöngubannið.

„Það er búið að vera að stefna í þetta í dálítinn tíma og fólk er svolítið krítískt á það hvað ríkisstjórnin var lengi að taka almennilega á þessu. Þeir voru að vonast og vonast eftir því að nægilega margir myndu fara og láta bólusetja sig en það er ennþá stór hluti fólks sem að sýnir þessu mótþróa og hefur ekki látið bólusetja sig sem er risastórt vandamál. Bæði hér og í Þýskalandi,“ segir Hjörtur.

Að sögn Hjartar var ríkisstjórnin frekar sein að setja á þessar hörðu aðgerðir og bólusetningarskyldu og það sé í raun og veru eitthvað sem ríkisstjórnin hefur verið að forðast. Nú sjái þau hins vegar ekki annan kost til þess að hindra næstu bylgju.

Hjörtur Hjörleifsson tónlistarmaður.
Hjörtur Hjörleifsson tónlistarmaður. Ljósmynd/Árni Hjörleifsson

Hjörtur bendir á að síðan það var tilkynnt í gær um bólusetningarskylduna hafi verið miklar mótmælagöngur í borginni og búist er við 15.000 manns á götunum. En mjög breiður fólks sé á móti bóluetningarskyldunni. 

„Þá aðallega fólk sem er á hægri kantinum sem að kjósa semsagt frjálsa flokkinn, FPÖ, sem er hægri popúlískur flokkur hér í Austurríki sem að hefur verið að tala gegn bólusetningum og þessum meintu skerðingum persónufrelsis.“

Þá bendir Hjörtur á að það séu einnig margir sem séu „alveg í hinu horninu: líbó, alternatívt lið sem trúir mikið á esóterik og óhefðbundnar lækningar, sem eru mjög skeptísk. Síðan er náttúrulega fólk sem er bara pólitískt á móti því að ríkið grípi svona inn í og sé að skerða þetta persónufrelsi.“

65% landsmanna bólusett

Hjörtur segir þó megnið af fólkinu í Austurríki sjái ástæðu til þess að það sé gripið til útgöngubanns. Hann bendir á að 65% landsmanna eru bólusett og því sé eflaust meirihlutinn samþykkur því að það þurfi að bólusetja og þurfi að koma á útgöngubanni.  

Hjörtur segir takmarkanirnar hafa talsverð áhrif á hann persónulega enda sé hann sjálfur tónlistarmaður og hafi mörgum tónleikum verið aflýst eða frestað. Þá hefur hann þurft að fara aftur að vinna fyrir sér í veitingabransanum en þar eru einnig takmarkaðir möguleikar til vinnu í útgöngubanni.

„Sem listamaður og þjónn, þá er þetta náttúrulega mikil skerðing en ég er alveg á því máli að þetta er alveg nauðsynlegt og það þarf bara hver að gera sinn hlut og ég er bara þakklátur fyrir það að búa í landi sem er með mjög gott heilbrigðiskerfi,“ segir Hjörtur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert