Tromsø verður að öllum líkindum fyrst norskra sveitarfélaga til að taka upp kórónupassa svokallaðan, það er rafræna staðfestingu á fullri bólusetningu, kórónuveirusýkingu síðustu sex mánuði eða nýafstöðnu neikvæðu veiruprófi sem skilyrði passahafans fyrir að fá að fara inn á veitingastaði, í sundlaugar, líkamsræktarstöðvar auk ýmissa uppákoma.
Reglugerð um kórónupassann var afgreidd frá ríkisstjórn Noregs í gær og bíður nú samþykkis Stórþingsins sem reiknað er með eftir helgi. „Við erum tilbúin. Við bíðum bara eftir tæknilegri lausn til að skanna kórónupassann,“ segir Gunnar Wilhelmsen bæjarstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
Verulega hefur sigið á ógæfuhliðina í kórónumálum í Noregi, eins og víðar, síðustu vikur og var í gær greint frá 2.364 nýjum smitum síðasta sólarhring á undan sem var 602 smitum meira en sama dag vikuna áður og nokkuð yfir sjö daga meðaltalinu 2.005 á sólarhring. Tromsø, höfuðstaður Norður-Noregs, hefur ekki farið varhluta af þessari þróun en þar hafa nýsmit verið milli 80 og 90 á sólarhring upp á síðkastið.
Þetta er ástæðan fyrir því að Tromsø hefur óskað eftir að prufukeyra kórónupassann en fyrir hálfum mánuði gripu yfirvöld þar til sóttvarnaaðgerða sem eru þær ströngustu í Noregi, en ekki er lengra síðan en í septemberlok að öllum kórónutengdum hömlum var aflétt í Noregi við fagnaðarlæti sem urðu fréttaefni um allt land vegna óspektanna sem þeim fylgdu.
Talsmenn viðskiptalífsins í Tromsø fagna væntanlegri kórónupassanotkun en ekki eru þó allir á eitt sáttir og hafa mótmæli verið boðuð við ráðhús bæjarins í dag auk þess sem undirskriftasöfnun gegn passanum hefur skilað 20.000 undirskriftum.
Nýjar sóttvarnareglur, sem ná til alls landsins, eru einnig væntanlegar og taka gildi á föstudaginn, 26. nóvember, samkvæmt kynningu ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í gær. Meðal þess sem þá tekur gildi er krafa um forskráningu allra komufarþega til landsins auk skyndiprófs annaðhvort á flugvelli eða innan 24 klukkustunda frá komu til landsins. Nýja reglugerðin um kórónupassa hefur þegar verið nefnd en til að byrja með er krafa um passann í höndum hvers sveitarfélags fyrir sig.
Af öðru sem nýi heilbrigðisráðherrannn Ingvild Kjerkol tiltók er skýr krafa stjórnvalda um að fólk sinni störfum sínum heima sé sá möguleiki fyrir hendi auk þess sem hún bað Norðmenn þess lengst allra orða að hætta að takast í hendur, en margir hafa nú tekið þann gamla góða sið upp aftur eftir að þeir töldu að það versta væri yfirstaðið.
Að lokum verður vinna við örvunarskammtana svokölluðu, þriðju sprautuna, sett á fullt og sagði ráðherra róið að því öllum árum að allir íbúar landsins eldri en 65 ára hefðu fengið tilboð um örvunarskammt fyrir jól.