WHO lýsir yfir áhyggjum af Evrópu

Dr. Hans Henri P Kluge, svæðisstjóri WHO í Evrópu, fyrir …
Dr. Hans Henri P Kluge, svæðisstjóri WHO í Evrópu, fyrir miðju. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur „mjög miklar áhyggjur“ af útbreiðslu Covid-19 í Evrópu þar sem álfan berst við nýja bylgju sýkinga um þessar mundir. 

Í samtali við BBC varaði Dr. Hans Kluge, svæðisstjóri hjá WHO, við því að 500.000 fleiri dauðsföll gætu verið skráð fyrir mars nema gripið verði til brýnna aðgerða.

Dr. Kluge sagði að aukning á grímunotkun gæti strax hjálpað. 

Nokkrar Evrópuþjóðir, þar á meðal Ísland, eru enn að sjá metdaga í fjölda smita og hafa þurft að grípa til aðgerða – róttækast í Austurríki, þar sem gripið hefur verið til útgöngubanns og skyldubólusetning boðuð. 

Dr. Kluge sagði að þættir eins og vetrarveðráttan, ófullnægjandi þátttaka í bólusetningum og hröð útbreiðsla hins bráðsmitandi Delta-afbrigðis væri um að kenna hvernig komið er fyrir faraldrinum í álfunni.

Hann kallaði eftir aukinni upptöku bóluefna og innleiðingu sóttvarnaráðstafana. 

„Covid-19 er enn og aftur orðinn númer eitt yfir dánarorsök á okkar svæði,“ sagði hann við BBC og bætti við „við vitum hvað þarf að gera“ til að berjast gegn veirunni.

Dr. Kluge sagði að ekki ætti að grípa til skyldubólusetningar nema sem „síðasta úrræði“ en að það væri „mjög tímabært“ að viðhafa „lagalega og samfélagslega umræðu“ um málið.

„Áður en til þess kemur eru aðrar leiðir eins og Covid-passinn,“ sagði hann og bætti við að þetta væri „ekki takmörkun á frelsi, frekar tæki til að halda einstaklingsfrelsi okkar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert