Eðlilegt að hafa áhyggjur en óþarfi að örvænta

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sé eitthvað til að hafa áhyggjur af en það sé aftur á móti engin ástæða til að örvænta. Fyrstu tilfelli afbrigðisins  sem hafa greinst í Norður-Ameríku, greindust í Kanada í gær.

Biden ávarpaði landsmenn á sama tíma og Bandaríkin hafa sett á ferðabann á átta Afríkuríki. Hann hvatti landsmenn jafnframt til að fara í örvunarbólusetningu og að nota grímur, að því er fram kemur í erlendum fjölmiðlum. Hann sagði ennfremur, að hann ætti ekki von á því að lagðar yrðu á frekari ferðatakmarkanir að svo stöddu.

Biden tók ennfremur fram, að það væri nánast óumflýjanlegt að Ómíkron-afbrigðið myndi greinast í Bandaríkjunum, en það greindist fyrst í Suður-Afríku.

Þá bætti hann við að fyrirtæki sem framleiði bóluefni vinni nú að gerð viðbragðsáætlana gerist þörf á framleiðslu nýrra bóluefna. 

Í lok síðustu viku ákváðu bandarísk stjórnvöld að banna allar flugferðir frá Suður-Afríku, Botsvana, Simbabve, Namibíu, Lesótó, Esvatíní, Mósambík og Malaví. Kanada, Bretland og Evrópusambandið, sem og fleiri ríki, hafa einnig sett á ferðabann frá ríkjum í suðurhluta Afríku.

Bestu lyfin og bestu vísindamennirnir

Biden sagði að með banninu hefðu Bandaríkin keypt sér frest til að rannsaka nýja afbrigðið. Þó að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafi sagt að Ómíkron sé afbrigði sem beri að hafa áhyggjur af, þá er enn margt á huldu um það. M.a. hvort það smitist hraðar á milli manna samanborið við önnur afbrigði og hvort þau bóluefni sem eru í boði í dag haldi Ómíkron-afbrigðinu niðri.

„Við erum með bestu bóluefnin í heiminum, bestu lyfin, bestu vísindamennina og daglega erum við að læra eitthvað nýtt,“ sagði forsetinn.

Hann hét því ennfremur að berjast gegn afbrigðinu hratt og með þekkingu og vísindin að vopni. „Ekki með glundroða eða ringulreið.“

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert