„Nýr veruleiki“ í Danmörku

Danir mótmæla hertari sóttvarnaaðgerðum fyrr í mánuðinum.
Danir mótmæla hertari sóttvarnaaðgerðum fyrr í mánuðinum. AFP

Hertari sóttvarnaaðgerðir taka gildi í Danmörku í dag en smittíðni þar hefur farið hækkandi líkt og í mörgum öðrum Evrópulöndum. Hefur því verið gripið til ráðstafana í von um að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Þetta er ekki einungis ný vika heldur nýr veruleiki,“ segir á vef Danska ríkisútvarpsins.

Undanfarna mánuði hefur samfélagið í Danmörku verið opið og leggjast því hertari aðgerðir misvel í Dana, líkt og marga aðra Evrópubúa sem standa frammi fyrir svipuðum breytingum innan samfélagsins. Hávær mótmæli hafa verið áberandi í mörgum Evrópulöndum vegna þess.

Grímuskylda og kórónupassinn

Aðgerðirnar sem taka gildi í dag fela fyrst og fremst í sér grímunotkun og kórónupassa. 

Mun grímuskylda meðal annars taka gildi á heilbrigðisstofnunum, skólum, almenningssamgöngum, verslunum og hárgreiðslustofum. Yngstu aldurshóparnir eru þó iðulega undanþegnir þessari skyldu.

Danir verða einnig að geta framvísað kórónupassa við ýmsar aðstæður. Nemendur, 15 ára og eldri munu þurfa að útvega sér passa til að sækja tíma í skólanum, ellegar framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi. Danir verða einnig að framvísa kórónupassa áður en þeir sækja þjónustu á borð við hárgreiðslu eða tattúeringu. Þá geta atvinnurekendur einnig krafið starfsfólk sitt um passann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert