Alls greindust 5.120 kórónuveirusmit í Danmörku í gær en það er mesti fjöldi smita sem greinst hefur í landinu á sólarhring frá upphafi faraldursins. Smitum fjölgar um 972 milli daga.
Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins.
Þar kemur enn fremur fram að alls liggi 439 á spítala og 61 þeirra er á gjörgæslu. 14 létust af völdum veirunnar síðastliðinn sólarhring. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis vegna stöðunnar.
Sóttvarnaaðgerðir voru hertar lítillega í landinu í upphafi vikunnar en nú er grímuskylda á heilbrigðisstofnunum, í almenningssamgöngum og á hárgreiðslustofum.
Auk þess þurfa íbúar Danmerkur að geta framvísað kórónupassa, vottorði um bólusetningu og/eða fyrri sýkingu, neikvæðu hraðprófi eða PCR-prófi, við ýmsar aðstæður; til að mynda í framhalds- og háskólum og einhverjum vinnustöðum.