Bandaríkin hafa hvatt yfirvöld í Rússlandi til að draga herlið sitt til baka frá landamærum Rússlands við Úkraínu. Verði Rússar ekki við beiðninni vara G7-ríkin og bandamenn þeirra við viðskiptaþvingunum.
Fulltrúar G7-ríkjanna komu saman í Liverpool á Englandi í dag. Fulltrúi utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sagði við blaðamenn að yfirvöld í Moskvu hefðu enn tíma til að verða við kröfunni.
„En ef þau velja að fara ekki þá leið, þá verða stórfelldar afleiðingar og miklu kostað til, til að bregðast við því og G7-ríkin eru algjörlega samstiga varðandi það,“ sagði fulltrúinn.
Bretar hafa sömuleiðis hótað áður óheyrðum viðskiptaþvingunum gegn Rússum dragi þeir ekki herlið sitt frá landamærunum.
Helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í málum Evrasíu, Karen Donfried, mun funda með yfirvöldum í Kiev og Moskvu í næstu viku. Hún mun síðan fara til Brussel og funda með fulltrúum Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins um stöðuna.