Tugþúsundir mótmæla skyldubólusetningu

Fjöldi fólks mótmælti í Vínarborg í dag. Hér er mannfjöldinn …
Fjöldi fólks mótmælti í Vínarborg í dag. Hér er mannfjöldinn fyrir utan Ríkisóperuhúsið. AFP

Tugþúsundir fólks hafa komið saman í Vín, höfuðborg Austurríkis, í dag og mótmælt skyldubólusetningum og útgöngubanni fyrir þá sem ekki hafa verið bólusettir.

Lögregluyfirvöld segjast gera ráð fyrir að um 44 þúsund manns hafi verið viðstaddir mótmælin, sem eru alls ekki þau fyrstu eftir að stjórnvöld landsins tilkynntu í síðasta mánuði að bólusetningar við Covid-19 yrðu gerðar að skyldu.

Útgöngubanni fyrir bólusetta lýkur á morgun, en þá munu óbólusettir áfram þurfa að halda sig heima.

Bólusetningarskyldan hefst í febrúar.
Bólusetningarskyldan hefst í febrúar. AFP

Sekt upp á hálfa milljón króna

„Nei við bóluefnafasisma,“ sagði á einu mótmælaskilti. „Ég er hvorki nýnasisti né bulla,“ stóð á öðru skilti, „Ég er að berjast fyrir frelsi og á móti bóluefninu.“

Frá og með febrúar munu allir íbúar landsins eldri en 14 ára verða skyldugir til að láta bólusetja sig, nema ástæður séu til annars sökum heilsufars.

Enginn verður þó neyddur með valdi til að bólusetja sig, en þeir sem neita munu þurfa að greiða sekt upp á 600 evrur, eða tæpar 90 þúsund krónur. Sektin getur svo hækkað upp í 3.600 evrur, eða rúma hálfa milljón króna, ef hún er ekki greidd.

Lögregla og mótmælendur tókust á í dag.
Lögregla og mótmælendur tókust á í dag. AFP
Lögregla gerir ráð fyrir að um 44 þúsund manns hafi …
Lögregla gerir ráð fyrir að um 44 þúsund manns hafi mótmælt í Vín í dag. AFP

Ekki rétta áttin fyrir lýðræðið

Manuela, sem er 47 ára, tjáði blaðamanni AFP-fréttaveitunnar að hún hefði ferðast til borgarinnar til að taka þátt í mótmælunum.

„Af hverju að útiloka þá sem eru ekki bólusettir, og sérstaklega börn?“ spurði Manuela, sem bætti við að hún sjálf væri bólusett.

„Það er ótrúleg mismunun fólgin í því að geta ekki sent barnið sitt í dans-, tennis- eða sundtíma.“

Analea, 44 ára fiðlukennari, sagði að þetta væri „ekki áttin sem lýðræði ætti að fara í“.

„Við getum haft mismunandi skoðanir og lífsgildi, en eigum samt að geta lifað frjálsu lífi saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert