Landsdómur í Danmörku hefur sakfellt Inger Støjberg, fyrrverandi varaformann Venstre og fyrrverandi ráðherra innflytjendamála, fyrir embættisafglöp og hefur hún verið dæmd í 60 daga óskilorðsbundið fangelsi.
Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins.
Støjberg sagði af sér varaformennsku í Venstre, helsta stjórnarandstöðuflokki Danmerkur, skömmu fyrir sl. áramót, en þá hafði komið í ljós að hún hafði afvegaleitt danska þingið um þá atburðarás sem leiddi til þess að ráðuneyti hennar gaf út árið 2016 ólögleg fyrirmæli um aðskilnað allra para sem sóttu um hæli í Danmörku, ef annar aðilinn var undir 18 ára aldri. Fyrirmælin voru síðar sögð ólögleg af umboðsmanni þingsins, þar sem þau kölluðu á aðskilnað án nokkurrar undantekningar eða rannsóknar á málsatvikum.
Alls sátu 26 í Landsdómnum og voru 25 þeirra sammála um að sakfella Støjberg.
Þetta er í sjötta sinn í sögu Danmerkur sem Landsdómur er kallaður saman til að kveða upp dóm og aðeins í annað sinn á sl. 100 árum.
Landsdómur var síðast kallaður saman í Danmörku á 10. áratug 20. aldar vegna Tamíla-málsins svonefnda, en þá var Erik Ninn-Hansen dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í fjóra mánuði fyrir að hafa komið í veg fyrir að flóttamenn úr hópi Tamíla gætu sameinast fjölskyldum sínum sem þegar voru löglega í Danmörku.