Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varaði þjóðir heimsins við því í dag að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar dreifði sér hraðar en nokkuð annað afbrigði og hvatti ríki heims til þess að bregðast skjótt við.
Yfirvöld í Hollandi hafa nú þegar lokað grunnkólum og Boris Johnson mældi í dag fyrir hertum takmörkunum í breska þinginu.
Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar Thedros Ghebreyesus sagði fréttamönnum í dag að afbrigðið hefði nú þegar greinst í 77 ríkjum en hefði „líklega“ dreift sér til flestra ríkja án þess að greinast sérstaklega sem Ómíkron-smit. Hann sagði afbrigðið dreifa sér töluvert hraðar en fyrri afbrigði veirunnar.
Ómíkron var uppgötvað í lok nóvember í Suður-Afríku en WHO tilkynnti um fund þess 24. nóvember. Strax í upphafi var vitað að afbrigðið væri að mörgu leyti ólíkt fyrri afbrigðum. Því bendi ýmislegt til þess að fyrra smit eða bólusetning af eldra afbrigði veiti lakari vörn gegn hinu nýja afbrigði.
Margir vísindamenn eru bjartsýnir vegna tölfræði frá Afríku en samkvæmt henni eru töluvert fleiri smit að greinast en dauðsföllum ekki að fjölga í samræmi við þann aukna fjölda smita. Mætti þá leiða líkur að því að afbrigðið sé meira smitandi en einkenni vægari.
Þrátt fyrir þessi fyrstu merki hvatti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ríki til þess að bregðast skjótt við afbriðginu. Bruce Aylward, sérfræðingur hjá stofnuninni sagði ekki ráðlegt að gera ráð fyrir því að um vægan sjúkdóm væri að ræða. Sagði hann það geta sett þjóðir í hættulega stöðu.