Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar breiðist nú út á „ljóshraða“ í Frakklandi og mun að öllum líkindum verða ráðandi afbrigði í Frakklandi í byrjun næsta árs, að sögn Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands. Þar er hlutfall Ómíkron-smita af greindum smitum nú orðið 7 til 10%.
Ummælin lét hann falla í gær, nokkrum klukkustundum áður en Frakkar settu harðar takmarkanir á ferðalög frá Bretlandi til Frakklands. Fólki sem hyggst ferðast til Frakklands vegna vinnu eða til skemmtunar er það nú óheimilt. Bannið tók gildi í gærkvöldi.
Fleiri þjóðir hafa í þessari viku sett frekari takmörk á ferðalög, til dæmis Ítalía, Grikkland og Frakkland sem krefjast þess að fólk skili neikvæðri niðurstöðu úr Covid-prófi þegar það kemur til landsins. Á þetta jafnt við um bólusetta og óbólusetta.
Bretland hefur til þessa skráð flest Ómíkron-smit en þau eru nú um 15.000 talsins.
Sóttvarnaaðgerðir hafa verið hertar víða um heim vegna útbreiðslu veirunnar, þar á meðal í Þýskalandi, Írlandi og Hollandi.
Hér á landi gilda núverandi takmarkanir til 22. desember, þ.e. næstkomandi miðvikudags. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt ólíklegt að farið verði í afléttingar en hefur ekkert gefið upp um það hvort hann muni mæla með hertum aðgerðum við heilbrigðisráðherra. Hann hefur biðlað til fólks að sinna persónubundnum smitvörnum til þess að mögulegt sé að koma í veg fyrir hertar aðgerðir.
89 milljónir manna í Evrópu hafa smitast af kórónuveirunni frá upphafi faraldurs og 1,5 milljón látist. Hérlendis hafa ríflega 20.000 smitast og 36 fallið frá úr Covid-19.
Katl Lauterbach, heilbrigðisráðherra Þýskalands, sagði í samtali við blaðamenn á föstudag að landið yrði að „undirbúa sig fyrir áður óséða áskorun.“ Frakkland, Noregur og Danmörk hafa verið skilgreind í Þýskalandi sem hááhættusvæði vegna fjölgunar smita í þeim löndum.
Enn er ýmislegt óvitað um Ómíkron en nokkuð ljóst þykir að það sé meira smitandi en fyrri afbigði. Hvort veikindi af þess völdum séu vægari eða alvarlegri en af völdum fyrri afbrigða er ekki vitað.