Breskir vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að örvunarskammtur af bóluefni gegn Covid-19 geti líklega veitt fólki um 85% vörn gegn alvarlegum veikindum af völdum Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar.
Verndin sem bóluefnin bjóða upp á gegn Ómíkron-smiti er þó aðeins minni en sú vernd sem bóluefnin veita gegn fyrri afbrigðum veirunnar. Samkvæmt niðurstöðum vísindamannanna ætti viðbótarskammtur aftur á móti að koma mörgum hjá sjúkrahúsinnlögnum vegna Covid-19.
BBC greinir frá.
Ómíkron-afbrigðið breiðist nú hratt um heiminn en það er talið töluvert meira smitandi en fyrra ráðandi afbrigði veirunnar, Delta-afbrigðið.
Niðurstöður vísindamannanna, sem starfa við Imperial College í Lundúnum, eru byggðar á þeim takmörkuðu upplýsingum sem liggja fyrir um Ómíkron-afbrigðið. Vísindamennirnir segja enn mikla óvissu í kringum afbrigðið. Til dæmis er enn ekki á hreinu hversu væg eða alvarleg veikindi af völdum Ómíkron-afbrigðisins eru.
Bóluefni gegn Covid-19 kenna líkamanum hvernig hann á að berjast við sjúkdóminn. En þau bóluefni sem nú eru í umferð voru ekki hönnuð til þess að takast á við Ómíkron. Vegna þessa hefur fólk víða um heim, til dæmis á Íslandi, verið hvatt til þess að þiggja örvunarskammt af bóluefni til þess að byggja upp meira mótefni gegn kórónuveirunni sem veldur Covid-19.
Í samtali við mbl.is í gær sagði framkvæmdastjóri Sameindar, fyrirtækis sem m.a. framkvæmir mótefnamælingar, að magn verndandi mótefna sem myndast eftir bólusetningu gegn Covid-19 margfaldist eftir að fólk fær þriðja skammtinn af bóluefninu, miðað við þær mótefnamælingar sem Sameind hefur framkvæmt.