Endalok plágunnar mögulega í augsýn

Bóluefnið, sem kennt er við hina einkennandi brodda kórónuveirunnar og …
Bóluefnið, sem kennt er við hina einkennandi brodda kórónuveirunnar og ferritín-nanóagnir (SpFN), hafði áður gefið góða raun í músum og öpum. AFP

Búist er við því að á næstu vikum muni vísindamenn við Walter Reed-rannsóknarstofnun Bandaríkjahers (WRAIR) greina frá nýju bóluefni, sem verji fólk fyrir öllum afbrigðum kórónuveirunnar, þar á meðal Ómíkron-afbrigðinu en einnig þeim afbrigðum, sem enn hafa ekki komið fram. Það kynni ljóslega að gerbreyta viðureigninni við veiruna.

Rannsóknarstofnunin hefur fengist við þróun bóluefnisins í hartnær tvö ár, en hún hófst um leið og fyrsta raðgreining erfðaefnis veirunnar barst snemma árs 2020. Þar á bæ var snemma ákveðið að vinna að bóluefni, sem ekki myndi aðeins duga gegn SARS-CoV-2-veirunni, sem þá breiddist skjótt út, heldur öllum mögulegum afbrigðum hennar og raunar öðrum kórónuveirum líka.

Bóluefnið, sem kennt er við hina einkennandi brodda kórónuveirunnar og ferritín-nanóagnir (SpFN), hafði áður gefið góða raun í músum og öpum.

Fyrsta fasa tilrauna á mönnum lauk fyrr í þessum mánuði og gafst bóluefnið vel, bæði gagnvart Ómíkron-afbrigðinu og fyrri afbrigðum. Að sögn dr. Kayvons Modjarrads, forstjóra smitsjúkdómadeildar WRAIR, verða lokaniðurstöður gefnar út á næstu dögum.

Önnur gerð bóluefnis en áður

Bóluefnið er ólíkt fyrri bóluefnum að því leyti að það notar prótín, sem líkist fótbolta með 24 hliðar að lögun og getur því tengst broddum allra afbrigða kórónuveirunnar.

Það er líka frábrugðið að því leyti að það er ódýrt í framleiðslu, það þarfnast ekki sérstakrar kælingar og aðeins þarf að bólusetja með því einu sinni.

Tilraunir með bóluefnið á mönnum tóku lengri tíma en ætlað var, því það þurfti að reyna á fólki, sem hvorki hafði smitast né fengið bólusetningu áður. Góður gangur í bólusetningu vestra og mikil útbreiðsla fyrri afbrigða töfðu það.

Dr. Modjarrad segir bólusetningu eina svarið. „Með Ómíkron er veiran orðin óumflýjanleg. Það er ekki hægt að forðast hana. Svo ég held að fyrr en síðar verði öll heimsbyggðin annaðhvort bólusett eða smituð,“ sagði hann í viðtali við Defense One, fjölmiðil Bandaríkjahers.

Eftir sem áður þarf bóluefnið að fara í gegnum tilraunir í fasa 2 og 3 til þess að fá leyfi til notkunar.

Það verður að heita líklegt í ljósi góðra niðurstaðna til þessa, þarfarinnar á heimsvísu og þess að uppistaðan ferretín, sem er járnríkt prótín, hefur áður verið notuð í mönnum án vandræða.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert