Yfirvöld í Frakklandi hafa fyrirskipað mosku í norðurhluta landsins að loka vegna róttækrar predikunar ímams moskunnar.
Moskunni er skylt að loka í sex mánuði en hún er í borginni Beauvais, þar sem búa um 50 þúsund manns. Söfnuðurinn er um 400 manns.
Að sögn yfirvalda í héraðinu Oise, þar sem moskan er, hvetja predikanir ímamsins til haturs, ofbeldis og jihad, eða heilags stríðs.
Tvær vikur eru síðan Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, tilkynnti að hann hefði sett af stað ferli til þess að loka moskunni þar sem ímaminn predikaði gegn tilvist „kristinna, samkynhneigðra og gyðinga“ og sagði Darmanin það vera „óviðunandi“.
Darmanin sagði fyrr í mánuðinum að um 100 moskur í Frakklandi væru til rannsóknar vegna róttækra predikana.