Toppnum ekki náð í Bandaríkjunum

Vivek Murthy landlæknir Bandaríkjanna.
Vivek Murthy landlæknir Bandaríkjanna. AFP

Vivek Murthy, landlæknir Bandaríkjanna, varaði við því fyrr í dag að Ómíkron-bylgjan hafi ekki enn náð hámarki þar í landi. Hann sagði næstu vikur myndu vera mjög erfiðar víðs vegar um landið og að sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum myndi fjölga. The New York Times greinir frá.

Í viðtali á CNN sagði Murthy að „góðu fréttirnar“ væru þær að tilfellum hefur fækkað í norðaustur hluta landsins og þá sérstaklega í New York og New Jersey. Áskorunin væri hins vegar sú að þróunin væri ekki sú sama í öðrum landshlutum og bætti við: „Við ættum ekki að búast við því að ná toppnum á landsvísu á næstu dögum.”

Dr. Ashish Jha, deildarforseti Brown University School of Public Health, lýsti einnig yfir áhyggjum yfir því að næstu vikur myndu vera yfirþyrmandi fyrir bæði sjúkrahús og starfsfólk. „Núna erum við um 150.000 manns á sjúkrahúsi með Covid,“ sagði hann. „Það er meira en við nokkru sinni fyrr. Ég býst við að þessar tölur muni hækka verulega.“

Ósammála Hæstarétti Bandaríkjanna

Dr. Murthy var ósammála niðurstöðu Hæstaréttar en í síðustu viku hafnaði dómstóllinn lög­mæti reglna Joes Bidens Banda­ríkja­for­seta þess efn­is að starfs­fólk á fjöl­menn­um vinnu­stöðum skuli gang­ast und­ir bólu­setn­ingu við Covid-19 eða ganga með grímu og vera skimað viku­lega fyr­ir veirunni

Sagði Murthy fréttirnar um að kröfunni hefði verið hafnað mikil vonbrigði. „Þetta var bakslag fyrir heilsu landsmanna. Vegna þess að að lokum eru þessar kröfur ekki bara hjálplegar til að vernda samfélagið í heild sinni heldur líka til að sjá til þess að vinnustaðir séu öruggari fyrir bæði starfsmenn og viðskiptavini,“ sagði hann. 

Næstum 63 prósent íbúa Bandaríkjanna eru að fullu bólusett, en aðeins 38 prósent þeirra hafa fengið örvunarsprautu, sem sumir segja að ætti að vera nýja skilgreiningin á fullri bólusetningu. Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hefur þó ekki breytt skilgreiningunni á fullri bólusetningu.

Fólk fái óskýr skilaboð

Óskýr skilaboð frá Sóttvarnastofnuninni og öðrum stofnunum hefur gert það að verkum að erfiðara er fyrir bandaríkjamenn að skilja stöðu veirunnar og hvernig eigi að bregðast við henni, sagði Jha.

„Ég held að Hvíta húsið þurfi að ná að samræma skilaboðin sín, og þurfa að ganga úr skugga um að fólk sé á sömu blaðsíðu,“ sagði Jha. Þó að vísindin hafi breyst hafa skilaboðin ekki fylgt, bætti hann við.

„Vinsamlegast, vinsamlegast látið bólusetja ykkur,“ sagði Dr. Murthy á ABC og minnti á að bólusetningarnar veita enn góða vörn gegn alvarlegum veikindum. „Það er ekki orðið of seint.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert