Bretar segja Pútín ætla að koma á leppstjórn

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Utanríkisráðherra Breta sakar Pútín Rússlandsforseta um að ætla sér að koma upp leppstjórn yfir Úkraínu sem hliðholl er Rússum. Utanríkisráðuneytið breska gekk meira að segja svo langt að nefna úkraínska þingmanninn Jevhen Múrajev í því sambandi og segja hann koma til greina hjá Pútín sem næsti leiðtogi Úkraínu.

Þetta segir í frétt BBC þennan morguninn og ljóst er að allt er á suðupunkti við landamæri Úkraínu og Rússlands.

Rússar hafa komið fyrir minnst 100 þúsund hermönnum nálægt landamærunum en neitar að innrás sé yfirvofandi.

Ráðherrar í bresku ríkisstjórninni og fleiri þjóðarleiðtogar á Veturlöndum hafa varað við því að innrás verði mætt með alvarlegum afleiðingum fyrir Rússa.

„Upplýsingarnar sem koma fram hér í dag varpa ljósi á aðgerðir Rússa til þess að grafa undan Úkraínu og gefur innsýn inn í hugarhátt Kremlverja,“ sagði Liz Truss, utanríkisráðherra Breta, í yfirlýsingu í morgun.

„Rússar verða að draga í land, hætta við herferð árásargirni og upplýsingaóreiðu og feta veg yfirvegaðra milliríkjasamskipta,“ sagði ráðherrann einnig.

Pútín harðneitar að innrás sé yfirvofandi

Rússar hafa áður gert innrás inn í Úkraínu, síðast árið 2014 inn í Krímskaga, í kjölfar þess að forseta landsins sem var hliðhollur Rússlandsforseta var steypt af stóli.

Leyniþjónustur Úkraínu og Vesturlanda hafa varað við því að innrás geti verið yfirvofandi snemma á þessu ári í ljósi hernaðarumsvifa Rússa við landamæri Rússlands og Úkraínu.

Pútín Rússlandsforseti þvertekur fyrir að innrás sé yfirvofandi en hefur þó krafist þess af vestrænum þjóðarleiðtogum að Úkraína gangi ekki í NATO. Hann vill einnig að NATO hætti að senda vopn til austanverðar Evrópu og hætti heræfingum sínum þar og segir að slíkt ógni öryggi Rússlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka