Tuttugu og fimm ára gamall svartur maður þurfti að sitja í fangelsi í sex daga eftir að lögreglan í Las Vegas í Nevada handtók hann í misgripum fyrir annan mann. Svo vill til að maðurinn sem lögreglan átti að hafa hendur í hári var hvítur og um fimmtugt.
Shane Lee Brown hefur farið í mál við lögregluna vegna þessa atviks. Hann var handtekinn í janúar 2020 í kjölfar umferðareftirlits þar sem hann gat ekki framvísað ökuskírteini. Lögreglan í Las Vegas taldi sig hafa undir höndum handtökuskipun í hans nafni, en það kom svo í ljós að umræddur maður heitir Shane Neal Brown, sem var hvítur karl á miðjum aldri með skegg. Hann er auk þessi hærri en yngri maðurinn og sat fyrst á bak við lás og slá árið 1994 áður en Shane Lee Brown fæddist.
Shane Lee Brown hefur, sem fyrr segir, höfðað mál á hendur lögreglunni og fer fram á 500.000 dali í miskabætur, sem samsvarar um 64 milljónum kr. Talsmaður bæjaryfirvalda í Henderson sagði í samtali við bandaríska fjölmiðla að yngri maðurinn hefði verið handtekinn með réttu þar sem hann hefði ekið bifreið með útrunnið ökuskírteini. Bæjaryfirvöld hafa aftur á móti ekki tjáð sig um þessar ásakanir að lögreglan hafi þarna farið mannavillt.
Fram kemur í kærunni að Shane Lee Brown hafi margítrekað tjáð lögreglu að hann væri ekki maðurinn sem lýst var eftir. Það var ekki fyrr en tæpri viku síðar að honum var sleppt úr haldi þegar lögmaður hans fékk dómara til að bera saman myndir af mönnunum, að því er kemur fram í umfjöllun BBC.
Lögreglan í Las Vegas fékk svo þær upplýsingar, átta dögum síðar, að Shane Neal Brown, sem er 51 árs í dag, hefði verið handtekinn í San Bernardino-sýslu í Kaliforníu. En ekki liggur fyrir hvort hann hafði verið handtekinn áður en Shane Lee Brown var stöðvaður við umferðareftirlit lögreglunnar.