Yfirvöld í Noregi tilkynntu í dag að áætlað sé að öllum sóttvarnartakmörkunum þar í landi verði aflétt fyrir 17. febrúar næstkomandi. Norðmenn stigu stórt skref í afléttingum í kvöld er nýjar og vægari sóttvarnarráðstafanir tóku gildi.
„Við erum loksins komin á þann stað að við getum aflétt mörgum af þeim takmörkunum sem við höfum þurft að búa við í vetur,“ sagði Jonas Gahr Store forsætisráðherra Noregs á blaðamannafundi í dag.
Hann bætti við að þjóðin yrði á næstunni að búa sig undir mikla fjölgun smita en undirstrikaði að það yrði gerlegt.
Samkvæmt nýjum sóttvarnaraðgerðum sem tóku gildi nú í kvöld þurfa Norðmenn ekki að fara í sóttkví ef þeir komast í tæri við Covid-smitaðan einstakling.
Einangrun smitaðra styttist og þurfa því þeir sem greinast með veiruna einungis að sæta einangrun í fjóra daga í stað sex.
Fjarvinna verður ekki lengur skylda og ótakmarkaður fjöldi fólks getur heimsótt önnur heimili og sótt íþróttaviðburði.
Ferðamenn sem koma til Noregs þurfa ekki lengur að fara í sýnatöku á landamærunum.
Grímuskylda verður áfram í almenningssamgöngum og verslunum þar sem ekki verður hægt að fylgja eins metra nálægðarreglu.
Finnar hafa einnig sagst munu aflétta öllum aðgerðum í febrúar.
Færeyingar hyggjast gera það sömuleiðis.
Danir afnámu samkomutakmarkanir innanlands í gær, mánudag.
Þá slökuðu þeir í dag, þriðjudag, á aðgerðum á landamærum.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur sagst mögulega munu kynna einhverjar tilslakanir á föstudag.
„Ég reikna með að ég muni nýta tímann núna, í þessu samtali bæði við heilbrigðisstofnanir um allt land og spítalann, og samtal við sóttvarnalækni, hvort að á föstudaginn ég geti komið með einhverjar tilslakanir. En það er bara of snemmt að fullyrða um það núna,“ sagði heilbrigðisráðherra í dag.
Tilkynnt var á föstudag að aðgerðum hér innanlands yrði aflétt á sex til átta vikum.
Þann 11. mars verða liðnar sex vikur frá þeirri tilkynningu, og átta vikur þann 25. mars.