Á hvítum hesti í áróðursmyndbandi

Kim Jong-un í janúar síðastliðnum.
Kim Jong-un í janúar síðastliðnum. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sést ríðandi um á hvítum hesti í nýju áróðursmyndbandi. Þar er honum hrósað fyrir frammistöðu sína í efnahagsmálum á meðan hvergi er minnst á nýlegar eldflaugatilraunir landsins.

Stjórnvöld í höfuðborginni Pyongyang hófu árið með sjö mismunandi eldflaugatilraunum. Þar á meðal var skotið á loft kraftmesta flugskeyti landsins frá árinu 2017. Óttast er að Kim ætli sér stærri hluti á þessu sviði, þar á meðal tilraunir með kjarnorkuvopn.

Í heimildarmynd ríkisstjórnar hans kemur fram að Kim er í óða önn að rétta efnahag landsins af í kjölfar erfiðra tíma vegna kórónuveirunnar og alþjóðlegra refsiaðgerða.

„Meginþemað í heimildarmyndinni er hollusta Kims í garð almennings og vinnusemi hans,“ sagði Rachel Minyoung Lee,  sem starfar hjá rannsóknarsetrinu Stimson Center í Washington.

„Ég held að við ættum ekki að velta okkur of mikið úr þessum hestaatriðum, heldur frekar nýlegum eldflaugatilraunum Norður-Kóreu,“ sagði Lee.

Norður-Kórea er að undirbúa hátíðarhöld í tilefni þess að í febrúar eru 80 ár liðin frá fæðingu Kims Jong-il, leiðtogans sáluga, og að í apríl verða 110 ár liðin frá fæðingu stofnandans Kims Il-sung,

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert