Mikil áhætta fólgin í að leggja undir sig Úkraínu

Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er eitt mesta spennuástand í samskiptum Rússlands og vestrænna ríkja frá lokum kalda stríðsins,“ segir Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um ástandið á landamærum Úkraínu.

Valur segir að setja verði aðgerðir Rússa í samhengi við sögutúlkun þeirra á stefnu Vesturlanda síðustu 30 ár.

„Þeir telja að vestræn ríki hafi svikið loforð eftir sameiningu Þýskalands um að NATO mundi ekki stækka til austurs. Enn fremur líta þeir svo á að Bandaríkjamenn hafi í krafti forræðis þeirra í alþjóðakerfinu farið sínu fram án nokkurs viðnáms, sem hafi komið fram í einhliða aðgerðum.“

Rússar vísi einkum til stríðanna í fyrrverandi Júgóslavíu, Íraksstríðsins – auk þess sem þeir segja vestræn ríki hafa sniðgengið umboð Sameinuðu þjóðanna í Líbíu-stríðinu og sett á svið „litabyltingar“ í Úkraínu, Georgíu, Kyrgistan og Armeníu svo að dæmi séu tekin.

Þá hafi Bandaríkjamenn sagt sig einhliða frá afvopnunarsamningum og NATO boðið tveimur fyrrverandi sovétlýðveldum, Úkraínu og Georgíu, inngöngu í bandalagið.

Valur segir að Rússar telji sig vera knúna til að svara í sömu mynt.   

Þyrnir í augum Rússa

„Þessari sögutúlkun hefur verið svarað með ýmsum hætti af vestrænum ríkjum: að ekkert beint samband hafi verið milli sameiningar Þýskalands og stækkunar NATO – og að Rússum hafi ekki verið gefið neitt formlegt loforð í því sambandi – að Kosovo-stríðið hafi verið háð til að koma í veg fyrir þjóðernishreinsanir eins og þær sem áttu sér stað í Bosníu, að Rússar hafi ekki staðið við afvopnunarsamninga og að samsæriskenningar um að vestræn ríki hafi sviðsett „litabyltingar“ eigi sér enga stoð.“  

Valur segir engan möguleika á því að Úkraína fái aðild að NATO í bráð – og Þjóðverjar og Frakkar hafi verið meðal þeirra NATO-ríkja sem hafa staðið í vegi fyrir því allt frá árinu 2008.

Það breyti því ekki að aukin tengsl Úkraínu við NATO hafa lengi verið þyrnir í augum Rússa.

„Úkraína hefur fengið hernaðarstuðning frá vestrænum ríkjum, ekki síst eftir innlimun Krímskaga. Rússar hafa líklega túlkað það svo að þetta samband mundi leiða til einhvers konar beinna hernaðarskuldbindinga,“ segir hann. 

Árið 2019 var t.d. lagt fram frumvarp á Bandaríkjaþingi um að veita Úkraínu sérstök fríðindi í formi hernaðaraðstoðar, en í þeim flokki eru ákveðin ríki sem teljast  „mikilsverð bandamannaríki án þess að vera í NATO“ [e. „major non-NATO ally“ status].

Valur segir að þótt Bandaríkin taki ekki að sér varnarskuldbiningar gagnvart slíkum ríkjum veita þeir þeim víðtæk hernaðarleg og efnahagsleg fríðindi.

Úkraínski herinn við æfingar.
Úkraínski herinn við æfingar. AFP

Fyrrverandi sóvétlýðveldi áhrifasvæði Rússa

„Með liðssafnaði sínum vilja Rússar vafalaust sýna – eins og þeir gerðu árið 2008 í hernaðaraðgerðunum í Georgíu – að ekki komi til greina að Úkraína verði aðili að NATO í framtíðinni.“ 

Valur segir að Rússar líti svo á að fyrrverandi sovétlýðveldi séu áhrifasvæði þeirra og að vestrænum ríkjum beri að virða það.

„Það er hins vegar togstreita í stefnu Rússa: annars vegar milli kröfunnar um að virða fullveldi ríkja á þeirri forsendu að hér sé um að ræða meginstoð alþjóðakerfisins og hins vegar um áhrifasvæði sem tekur til fyrrverandi sovétlýðvelda og hefur fengið ýmis pólitísk fegrunarheiti eins og „svæðið eftir Sovétríkin“ [e. „post-Soviet space“], „nærsvæði“ [e.„near-abroad“] eða „svæðið þar sem Rússar hafa sérstaka hagsmuni“ [e.„region of Russian privileged interest“].“   

Endurskilgreina stjórnmála- og efnahagstengsl

Hann segir að herviðbúnaður Rússa snúist því ekki aðeins um að knýja á um að samið verði um nýtt alþjóðlegt öryggiskerfi þar sem þeir fengju tryggingu fyrir því að Úkraína gangi ekki í NATO, heldur vafalaust einnig um að endurskilgreina stjórnmála- og efnahagstengsl Rússlands og Úkraínu á eigin forsendum.

„Vladimír Pútin Rússlandsforseti orðaði það mjög skýrt í grein um söguleg tengsl ríkjanna í fyrra: að Rússar og Úkraínumenn „væru sama þjóðin“ – og „hið sanna fullveldi Úkraínu“ væri aðeins „mögulegt í samstarfi við Rússland“.“

Valur segir að ekki þurfi að taka fram að slíkt valdasamband yrði mjög einhliða. 

Vitað að kröfunum yrði hafnað

Hann segir að gera verði ráð fyrir því að Rússar hafi vitað fyrirfram að öryggiskröfum þeirra yrði hafnað af NATO og Bandaríkjamönnum, ekki síst þeim sem gengu út á að fá neitunarvald yfir stækkun NATO og að draga til baka hermenn og vopnabúnað frá þeim ríkjum sem gengu í bandalagið eftir árið 1997, þ.e. þeim Austur-Evrópuríkjum sem voru á áhrifasvæði Sovétríkjanna í kalda stríðinu.

NATO hefur vísað kröfum Rússa afdráttarlaust á bug.

Hins vegar opnuðu Bandaríkjamenn á það í svari sínu að ræða staðsetningu eldflaugakerfa og hermanna í Úkraínu, hefja afvopunarviðræður á sviði meðaldrægra og skammdrægra kjarnaflauga og semja um upplýsingaskipti vegna heræfinga, þar á meðal flugs sprengjuflugvéla sem geta borið kjarnavopn.

„Ef Bandaríkjamenn og Rússar setjast að samningaborðinu um Úkraínu og afvopnunarmál gæti það verið skref til að létta á spennunni, enda hefur hættan á nýju vopnakapphlaupi aukist eftir að Bandaríkjamenn og Rússar sögðu sig frá IMF-samningnum um bann við framleiðslu meðaldrægra eldflauga.“ 

Her Úkraínu að þjálfa hinn almenna borgara til að nota …
Her Úkraínu að þjálfa hinn almenna borgara til að nota skotvopn. AFP

Taka mikla áhættu

Valur segir að sú spurning vakni hvort það nægi til þess að fá Rússa til að draga herlið sitt til baka frá landarmærum Úkraínu.

„Ef Rússar gerðu tilraun til að leggja undir sig Úkraínu tækju þeir mikla áhættu og fórnarkostnaðurinn yrði mikill. Það þarf ekkert að vera að hótanir Bandaríkjamanna um að grípa til harðra efnahagslegra refsiaðgerða mundu gera útslagið,“ segir hann og bætir við að Rússar eigi mjög stóran gjaldeyrisforða og hafi eflt enn frekar samstarf sitt við Kína á ýmsum sviðum.

„En Úkraínumenn ráða yfir 200 þúsund manna her og hafa fengið vopnabúnað frá Bandaríkjunum, Bretlandi og öðrum NATO–ríkjum – og þótt gert sé ráð fyrir að Rússar geti án teljandi erfiðleika sigrað úkraínska herinn yrði ekki létt verk fyrir hernámsstjórn að verjast andspyrnu Úkraínumanna.“

Gætu ákveðið að taka aðeins Donbass-hérað

Valur segir að Rússar gætu ákveðið að taka aðeins yfir Donbass-hérað, þ.e. svæði rússneskumælandi aðskilnaðarsinna í Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu, og jafnvel innlimað þau.

Þeir gætu notað það sem átyllu ekki hafi verið staðið við Minsk-II samkomulagið frá árinu 2015 sem þeir reyndar telja sig ekki eiga formlega aðild að, en það kveður á um stjórnarskrárbreytingar í Úkraínu og „sérstöðu“ Donetsk og Luhansk í formi óskilgreindrar sjálfstjórnar.

Það yrði þá endurtekning á því sem gerðist árið 2008 þegar Rússar brugðust með hervaldi við misheppnaðri tilraun stjórnarinnar í Georgíu til að endurheimta aðskilnaðarhéruðin Abkazíu og Suður-Ossetíu og síðan með því að viðurkenna þau sem sjálfstæð ríki.   

„Hins vegar má gera ráð fyrir að allar slíkar hernaðaraðgerðir hefðu víðtækar afleiðingar í för með sér – leiða til þáttaskila í samskiptum Rússlands og vestrænna ríkja og afturhvarfs til þess spennuástands sem einkenndi kalda stríðið.“   

Mótmæli í Úkraínu.
Mótmæli í Úkraínu. AFP

NATO muni ekki verja Úkraínu

Valur segir að ljóst sé að NATO muni ekki verja Úkraínu ef Rússar ráðast inn í landið.

„NATO-ríkin hafa þó brugðist við liðssafnaði Rússa við landamæri Úkraínu með ólíkum hætti. Úkraínustjórn hefur m.a. fengið vopn frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Póllandi og Eystrssaltsríkjunum auk þess sem Bandaríkjamenn hafa sent nokkur þúsund hermenn til Austur-Evrópu í táknrænu varnarskyni.“

Fyrirsjáanleg afstaða Þjóðverja

Viðbrögð Þjóðverja og Frakka hafa verið með nokkrum öðrum hætti og þeir hafa lagt áherslu á diplómatískar viðræður um lausn deilunnar.  

Valur segir að sú varfærna afstaða sem þýsk stjórnvöld hafi tekið í Úkraínudeilunni hafi verið fyrirsjáanleg þótt einn stjórnarflokkurinn, græningjar, hafi vilja taka harðari afstöðu gegn Rússlandi.

„Stjórnarskiptin í lok síðasta árs hafa ekki haft nein áhrif á utanríkisstefnu Þýskalands. Nýi kanslarinn, sósíaldemókratinn Olaf Scholz, hefur reyndar verið gagnrýndur heima og erlendis fyrir að hafa ekki skipt sér meira af Úkraínudeilunni,“ segir hann, en fundir Scholz með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Washington D.C. og Pútin í Moskvu bendi þó til þess að breyting sé að verða á því.  

„Það hefur einnig verið deilt á þýsku stjórnina fyrir að hafa ekki sýnt Úkraínu nægilegan stuðning og fyrir að veikja samstöðu NATO. Þjóðverjar hafa aftekið að senda vopn til Úkraínu, en lofað mannúðarstuðningi eins og að koma þar upp vettvangssjúkrahúsi.

Söguleg rök vega hér þungt, það er árásarstríð Þýskalands gegn Sovétríkjunum í síðari heimsstyrjöld – og Þjóðverjar vísa til þess.“

Deilurnar um Nord Stream

Valur segir að Þjóðverjar hafi áður sett sig á móti á frekari vígvæðingu á spennusvæðum til dæmis í Bosníustríðinu á 10. áratug 20. aldar.

En þótt þeir hefðu ekki tekið beinan þátt í loftárásum NATO í Bosníu  gerðu þeir það þó engu að síður í Kosovo-stríðinu.

„Í augum Þjóðverja mundu þýskar vopnasendingar til Úkraínu nú ekki skipta máli því að rússneski herinn sé mun sterkari en sá úkraínski.“ 

Hann minnist á að Þjóðverjar hafi heldur ekki viljað samþykkja ítrustu refsiaðgerðir vestrænna ríkja gegn Rússum ef þeir gera innrás í Úkraínu, eins og að útiloka Rússa frá swift-millifærslukerfinu sem notað er af bönkum um allan heim.

„Þeir óttast að slík aðgerð gæti komið niður á þeim sjálfum, enda sjá Rússar þeim fyrir um 50% of gas- og olíuþörf þeirra. Þetta tengist einnig deilum um Nord Stream II gasleiðsluna frá Rússlandi til Þýskalands.“

Frakkar vilja að Evrópusambandið sé óháð öðrum ríkjum

Spurður út í afstöðu Frakka í deilunni segir Valur  að þeir vilji marka sér sérstöðu með tvennum hætti.

„Annars vegar gengur Emmanuel Macron Frakklandsforseta það til að hafa bein áhrif á diplómatískar umleitanir til að leysa deiluna.

Allt frá valdatíma Charles De Gaulle á 6. og 7. áratug 20. aldar hafa Frakkar átt sér þann draum að semja við Rússa um evrópsk öryggismál án þess að NATO yrði í aðalhlutverki – og þess er skemmst að minnast að Macron lýsti því yfir árið 2019 að bandalagið væri „heilalaust“.

Hins vegar vilja Frakkar að Evrópusambandið verði óháð öðrum ríkjum eða bandalögum í varnarmálum í nafni „strategísks sjálfræðis “ [e. „strategic autonomy“].

Og nú þegar Frakkar fara með formennsku í ráði Evrópusambandsins er Macron ákveðinn í að notfæra sér það með því að láta til sín taka í Úkraínudeilunni.“

Valur segir að samt megi gera ráð fyrir að Rússar telji að ekki verði unnt að ná víðtæku samkomulagi um öryggismál nema Bandaríkjamenn verði þar helsti samningsaðilinn, enda fara þeir með forræði í NATO.

„Auk þess vilja sum Austur-Evrópuríki, sem eiga aðild að ESB, eins og Pólland og Eystrsaltsríkin ekki að nokkuð sé gert til að draga úr áhrifum NATO vegna hernaðarmáttar Bandaríkjanna.

Og þótt Þjóðverjar styðji hugmynd Frakka um að efla Evrópusambandið og vinni að auknu sjálfstæði þess hernaðarlega hafa þeir ekki viljað að það komi niður á NATO,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka