Stórt afléttingarskref í New York

Grímuskyldan mun áfram gilda í skólum.
Grímuskyldan mun áfram gilda í skólum. AFP

Stórt skref í afléttingum var stigið í dag í New York ríki í Bandaríkjunum þegar grímuskyldan var að hluta til afnumin, mun afléttingin taka gildi á morgun. Ákvörðunin tekin í ljósi fækkandi daglegra kórónuveirusmita í landinu.

Kathy Hochul ríkisstjóri New York tilkynnti í dag að reglugerð um grímuskyldu innandyra í fyrirtækjum yrði ekki endurnýjuð en hún rennur sitt skeið á morgun. Þess í stað munu fyrirtæki og borgaryfirvöld á hverjum og einum stað fyrir sig taka ákvörðun um grímuskylduna.

Kathy Hochul ríkisstjóri tilkynnti ákvörðunina í dag.
Kathy Hochul ríkisstjóri tilkynnti ákvörðunina í dag. AFP

Hún sagði bjartari horfur framundan en kórónuveirusmitum hefði fækkað umtalsvert eða um 93% frá byrjun janúar.

Grímuskylda verður þó áfram í gildi í skólum en staðan verður endurmetin í næsta mánuði.

Fleiri aflétta grímuskyldu

Ákvörðun Hochul kemur í kjölfar þess að þó nokkur ríki tilkynntu áætlanir á mánudag um að aflétta grímuskyldu innandyra, meðal annars í skólum. Kórónuveirusmitum hefur fækkað ört um öll Bandaríkin.

Þannig munu bólusettir ekki þurfa að bera grímu innandyra í Kaliforníu frá og með 15. febrúar næstkomandi. Sama mun ekki gilda um óbólusetta sem munu áfram þurfa að framfylgja grímuskyldu.

John Carney, ríkisstjóri Delaware hefur tilkynnt að grímuskylda innandyra muni falla úr gildi næsta föstudag. Nemendur  þurfa þó að bíða lengur en grímur verða nauðsynlegar í skólum út marsmánuð.

Þá mun grímuskyldan í skólum í Massachusetts ríki ljúka þann 28. febrúar.

Frekari fléttingar í kortunum

Enn er í gildi grímuskylda í byggingum alríkisstofnanna, á flugvöllum og lestarstöðvum, samkvæmt tilmælum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC). Þrátt fyrir það virðast embættismenn nú tala fyrir því að eðlilegri tímar séu framundan.

„Við erum nú að færast frá tímum þar sem Covid-10 hefur truflað okkar daglega líf. Tími þegar Covid veldur ekki stöðugri krísu, heldur verður eitthvað sem við getum verndað okkur gegn og meðhöndlað,“ sagði Jeff Zients, um­sjón­ar­maður Hvíta húss­ins í viðbrögðum gegn kór­ónu­veirufar­aldr­in­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert