Amnesty fyrtist við auglýsingu VG

Hinn norski Jørgen Graabak svífur um loftin blá yfir áhorfendum …
Hinn norski Jørgen Graabak svífur um loftin blá yfir áhorfendum á Vetrarólympíuleikunum í Peking í gær, en Norðmenn hafa það sem af er leikum tryggt sér fjóra gullpeninga, tvo silfurslegna og fjóra úr bronsi. Ekki eru allir á eitt sáttir um auglýsingu kínversku ríkisfréttastofunnar Xinhua í vefútgáfu VG á þriðjudaginn. AFP

Noregsdeild mannréttindasamtakanna Amnesty International gagnrýnir norska dagblaðið VG harðlega vegna auglýsingar fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking sem birtist í vefútgáfu þess á þriðjudaginn, en norskir keppendur hafa rakað þar til sín gulli, silfri og bronsi síðustu daga, alls tíu verðlaunum.

Það er kínverska fréttastofan Xinhua sem skráð er fyrir auglýsingunni, sem reyndar er heil grein, en kirfilega merkt sem auglýsing í samræmi við reglur norskra fjölmiðla. Umræðuefnið er sú lyftistöng sem yfirstandandi leikar hafa verið vetraríþróttaiðkun kínversku þjóðarinnar, en það kallar John Peder Egenæs, aðalritari Amnesty Norge „gríðarmikla sólskinsgrein“ og brigslar VG um að taka þátt í „íþróttaþvotti“, eða „sportsvasking“ upp á norsku, sem felur í sér vísun í heilaþvott.

Samkvæmt skilgreiningu Jan Petter Saltvedt, fréttamanns norska ríkisútvarpsins NRK, sem ásamt fleiri norskum miðlum greinir frá gagnrýni Amnesty, telst íþróttaþvottur sú háttsemi þegar „ríki með vafasamt orðspor á vettvangi mannréttinda, tjáningarfrelsis og lýðræðis notfærir sér íþróttir til að sýna sig í betra ljósi en efni standa til“.

Vill heyra hugleiðingar ritstjórnar VG

„VG leggst á árarnar með Kína við að draga upp glansmynd,“ segir Egenæs Amnesty-ritari og bendir á að auglýsingin svokallaða sé ekkert annað en áróðursgrein. „Hún er sett fram sem gríðarmikil sólskinsgrein frá Kína,“ segir hann við NRK, en á Twitter-svæði sínu varpar Amnesty Norge fram þeirri spurningu hvers konar mat hafi farið fram áður en Schibsted Partnerstudio, útgáfufyrirtæki VG, gekk til samninga við kínversku fréttastofuna.

Ef ekki væri fyrir orðið „Annonsørinnhold“, eða auglýsingainnihald, efst til …
Ef ekki væri fyrir orðið „Annonsørinnhold“, eða auglýsingainnihald, efst til vinstri liti auglýsing kínversku ríkisfréttastofunnar Xinhua út eins og hvert annað ritstjórnarefni á stærsta netfréttamiðli Noregs, vefsíðu dagblaðsins VG. Þetta strýkur Noregsdeild mannréttindasamtakanna Amnesty International andhæris og brigslar hún ritstjórn VG um að taka þátt í „íþróttaþvotti“ kínverska Kommúnistaflokksins. Skjáskot/VG

Vetrarólympíuleikarnir hafa, ef marka má Xinhua, verið mörgum Kínverjanum uppspretta gleði og innblásturs, fullyrðing sem í augum Egenæs er einmitt burðarás íþróttaþvottarins: „Frá okkar sjónarhóli er þetta mikilvægur liður í íþróttaþvotti Kínverja. Það táknar vitaskuld ekki að VG eigi að neita að birta það sem [Xinhua] óskar eftir, en við gerum okkur væntingar um að þeir [VG] taki meðvitaða afstöðu til þeirra auglýsinga sem þeir birta,“ segir hann og bætir því við að athyglisvert væri að heyra hugleiðingar ritstjórnar VG um birtingu auglýsingarinnar.

Øyvind Næss, sem gegnt hefur stöðu starfsmannastjóra VG síðan 2011 auk þess að fara með hlutverk regluvarðar ritstjórnar í siðferðismálum, segir auglýsinguna vitanlega hafa verið rædda á ritstjórn miðilsins. „Þetta er skilmerkilegt auglýsingaefni frá Kína, um það er okkur kunnugt. En þetta er ekki grein í VG, heldur auglýsing. Ég hef alla trú á því að lesendur VG, sem eru vanir auglýsingum á þessu formi, átti sig á að Kína er sendandinn,“ segir Næss.

Ítrekuð umfjöllun siðanefndar

Spurningu NRK um hvort ritstjórnin líti þá svo á, að efnið sé ekki þátttaka í íþróttaþvotti þar sem það sé merkt sem auglýsing, svarar starfsmannastjórinn á þann veg að um sé að ræða tilraun til að sýna Kína í jákvæðu ljósi. „Tjáningarfrelsi gildir líka í auglýsingum. Noregur hefur töluverð tengsl við Kína, meðal annars gegnum leikana og viðskiptasamninga.“

Bendir fréttamaður NRK þá á, að VG hafi áður sætt gagnrýni fyrir auglýsingagreinar af þessu tagi sem auðveldlega megi misskilja sem ritstjórnarefni. Þurfi þar með ekki að stíga sérstaklega varlega til jarðar þegar auglýsandinn standi fyrir gildi sem ritstjórn VG gæti ekki fallist á?

„Þetta er auglýsingastaðall sem hefur verið þrætuepli árum saman og hefur batnað að formi til eftir ítrekaða umfjöllun PFU [siðanefndar norska blaðamannafélagsins]. Við veljum ekki stærð á auglýsingamerkinguna eftir því hvort okkur fellur innihald auglýsingarinnar eða auglýsandinn í geð,“ svarar Næss.

Vekja samúð og skapa ákefð

Andreas Selliaas blaðamaður, eigandi vefsíðunnar idrettspolitikk.no, eða íþróttapólitík, segir þá gerð auglýsinga, sem hér er til umræðu, birtast innan um ritstjórnarefni og ætlað að líkjast því í fljótu bragði. VG birti í auglýsingunni „ósíað“ efni frá kínverskri fréttastofu. „Mitt í allri umfjölluninni um tjáningarfrelsi og mannréttindabrot í Kína birtast ósíaðar fréttir frá kínverskri fréttastofu, sem lýtur stjórn Kommúnistaflokksins, um það sem efst er á baugi í vetraríþróttum,“ segir Selliaas við NRK.

Xinhua-fréttastofan slær því meðal annars fram í auglýsingu sinni að …
Xinhua-fréttastofan slær því meðal annars fram í auglýsingu sinni að Vetrarólympíuleikarnir í Peking séu rúmlega 300 milljónum manns gleðiefni. Amnesty og fleiri telja auglýsingunni í raun ætlað að sýna Kína í öðru ljósi en því sem lýsir upp brot gegn mannréttindum og tjáningarfrelsi. Skjáskot/VG

Bendir hann enn fremur á að auglýsingin birtist meðan á Vetrarólympíuleikunum stendur og sé hreint kynningarefni frá Kína með það fyrir augum að draga upp mynd af ríkinu sem einhverju öðru en veldi sem leggur stund á mannréttindabrot gagnvart eigin þegnum. „Þeir trana sér fram í því skyni að vekja samúð og skapa ákefð. Sendandi fer fram á að fá þetta birt í stærsta netmiðli Noregs,“ segir Selliaas í greiningu sinni á málavöxtu og klykkir út með því að líklega gildi það Xinhua-fréttastofuna einu hvort efni hennar hafi verið auðkennt sem auglýsing eður ei.

Sendiráðið verst fimlega

Að lokum leitar NRK álits kínverska sendiráðsins í Ósló á því hvort auglýsing ríkisfréttastofunnar kínversku sé íþróttaþvottur og fær því vísað á bug með þeim rökum að þarna sé aðeins um auglýsingu að ræða.

„Við leggjum traust okkar á að allir hlutaðeigandi hafi gaumgæft siðareglur norskra fjölmiðla við meðferð þessa efnis,“ skrifar sendiráðið í svari til NRK, „telst það ekki sameiginlegt hagsmunamál Kína og Noregs að laða fleiri að vetraríþróttum, styðja grænt hagkerfi og berjast gegn fátækt?“

Beinir svarandi sendiráðsins athyglinni því næst að Norðmönnum sem gestgjöfum Vetrarólympíuleikanna árin 1952 og 1994. „Rak Noregur þá einhver leynileg stefnumál? Þeir sem finna Kína allt til foráttu ráðast jafnvel gegn hefðbundnum auglýsingum. Hvert verður þá þeirra næsta skotmark og hver er hinn raunverulegi tilgangur?“ er spurt í svari sendiráðsins.

NRK

Auglýsing Xinhua í VG

M24.no

Idrettspolitikk.no

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert