Danir reiðubúnir að taka við bandaríska hernum

Mette Frederiksen, forsætisráðherra, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra og Morten Boedskov, varnarmálaráðherra …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra og Morten Boedskov, varnarmálaráðherra á blaðamannafundi í dag. AFP

Yfirvöld í Danmörku sögðust í dag reiðubúin til þess að leyfa bandarískum hersveitum að hafa aðsetur í Danmörku, sem hluta af nýju tvíhliða varnarsamstarfi þeirra við Bandaríkin.

„Bandaríkin hafa haft samband við okkur og lagt til tvíhliða varnarsamstarf,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í dag.

„Nákvæm lýsing á samstarfinu hefur ekki verið skilgreind en það gæti falið í sér veru bandarískra hermanna og herbúnaðar á danskri grundu.“

Vestræn gildi í hættu

Hún bætti við að samræður Danmerkur og Bandaríkjanna um varnarsamstarf væri ekki einungis í kjölfar aukinnar spennu milli Vesturlanda og Rússlands vegna Úkraínudeilunnar en að sú deila sýni fram á þörf fyrir frekara samstarf milli þjóðanna.

„Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin eru ábyrg fyrir öryggi okkar. Þess vegna tökum við höndum saman með Bandaríkjunum þegar vestræn gildi eins og lýðræði og frelsi eru í hættu," sagði Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, sem einnig var viðstaddur á fundinum.

Bandaríkin hafa haft fasta hernaðarlega viðveru á Grænlandi, en ekki í Danmörku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert