Lést á sama stað og hann bað eiginkonunnar

Austurhlið fjallsins Helvellyn.
Austurhlið fjallsins Helvellyn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Fyrrverandi læknir hjá enska knattspyrnuliðinu Manchester City lést eftir að hafa fallið 100 metra fram af hömrum í þjóðgarðinum Lake District þar sem hann hafði beðið eiginkonu sinnar 27 árum áður.

Dr. Jamie Butler féll fram af hömrunum eftir hafa verið í fjallgöngu með eiginkonu sinni Margaret, á síðasta ári. Þau höfðu ákveðið að snúa aftur til fjallsins og finna nákvæmlega sama stað og þegar hann bar upp bónorðið árið 1994, að sögn The Guardian.

Rannsókn leiddi í ljós að Butler, sem var 54 ára, hafi að öllum líkindum fallið á sama tíma og þoka var á svæðinu og erfitt að sjá fram fyrir sig þennan dag, 2. nóvember.

Þegar þau komu að bónorðsstaðnum Striding Edge, áður en farið er á topp fjallsins Helvellyn, var Margaret of þreytt til að halda áfram. Eiginmaður hennar ákvað þá að halda einn áfram, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Í yfirlýsingu eiginkonunnar sem birtist í skýrslunni sagðist hún hafa séð mann sinn ganga á brott í þokunni. Eftir að hún kallaði á eftir honum án þess að fá svar hringdi hún í lögregluna.

Björgunarsveitarmenn fundu Butler fyrir neðan hamarinn, með ýmiss konar meiðsli. Meðal annars hafði hann höfuðkúpubrotnað og var hann í framhaldinu úrskurðaður látinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka