Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lýst sjálfum sér sem miklum bílaáhugamanni en nú er eldsneytið sem þeir ganga fyrir að varpa skugga á forsetatíð hans.
Eldsneytisverð er það hæsta sem það hefur verið í sjö ár í Bandaríkjunum og meðalverð á lítra um 115 krónur sem er um 50% hærra frá því að Biden tók við forsetaembættinu. Þetta kemur fram á vef Financial Times.
Hvíta húsið sendi frá sér tilkynningu á þriðjudag þess efnis að hægt væri að afnema eldsneytisskatt til þess að koma í veg fyrir frekari hækkanir – þá sérstaklega ef Rússland ræðst inn í Úkraínu.
Þessi áform hafa verið harðlega gagnrýnd þar sem Biden hefur áður gefið út að hann hyggðist styðja græn orkuskipti.
Stjórnmálafræðingar telja þessi áform kynnt vegna þess að þingflokkskosningar eru á næstu leyti í Bandaríkjunum og mikilvægt fyrir Biden að demókratar haldi meirihluta á þinginu.
Ef litið er til stuðnings við forseta og eldsneytisverðs í Bandaríkjunum má sjá að stuðningur er meiri þegar eldsneytisverð er lágt.
Biden hefur sagt að hans stjórn sé með öll tól og völd til þess að lækka eldsneytisverð. Fjármálagreinendur telja að þessi tól, og þar á meðal sú aðgerð að afnema eldsneytisskatt, hefðu lítil sem engin áhrif á eldsneytisverð.
Stjórn Bidens hefur nú í rúmlega fimm mánuði reynt með hinum ýmsu aðferðum að lækka eldsneytisverð, en til þessa hefur það aðeins hækkað.
Biden er ekki fyrsti forsetinn sem hefur þurft að glíma við hækkandi eldsneytisverð og verðbólgu. Þessar áskoranir hafa gert forsetann að auðveldu skotmarki andstæðinga sinna fyrir komandi þingkosningar. Jimmy Carter og Georg W. Bush þurftu að glíma með sams konar vandamál á þeirra forsetatíð.
Stjórn Bidens hefur krafist þess að OPEC+ hraði olíuframleiðslu til þess að lækka eldneytisverð.
Þessi krafa kemur aðeins tveimur árum eftir að Trump krafðist þess að OPEC+ myndi stöðva framleiðslu á olíu til þess að koma í veg fyrir fall olíuiðnaðarins í Bandaríkjunum, þar sem um tíma var olíuverð neikvætt árið 2020.