Leiðtogar aðskilnaðarsinna í Donetsk-héraðinu og Lugansk-héraðinu í austurhluta Úkraínu hafa sent út herkvaðningu. Vaxandi áhyggjur eru uppi um að stríðsátök muni hefjast á næstu dögum og hafa yfirvöld í héruðunum hvatt almenning til að forða sér til Rússlands.
Tilkynningarnar bárust í kjölfar þess að eftirlitsmenn frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu greindu frá fjölgun árása við framlínu svæðanna í austurhluta Úkraínu sem er undir stjórn uppreisnarmanna sem eru hliðhollir Rússum.
Í myndskeiði sem var birt á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum hvatti Denis Pushilin, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Donetsk-héraðinu, samborgara sína að mæta á herkvaðningarskrifstofur í landinu í ljósi þess að hann væri búinn að skrifa undir tilskipun um herkvaðningu.
Skömmu síðar birti Leonid Pasechnik, leiðtogi aðskilnaðarsinna í nágrannahéraðinu Lugansk, einnig svipaða yfirlýsingu.
Í gær bárust fregnir af því að stór sprenging hefði orðið í borginni Luhansk, sem er á valdi rússneskra aðskilnaðarsinna í Austurhluta Úkraínu.
Sérfræðingar í varnarmálum telja líklegt að sett verði á svið atvik í héruðum aðskilnaðarsinna á næstu dögum til að skapa ástæðu fyrir Rússa til að hefja innrás.
Leiðtogar vestrænna ríkja hafa haft miklar áhyggjur af umfangsmiklum vígbúnaði Rússa við landamæri Úkraínu þar sem á annað hundrað þúsund rússneskir hermenn hafa haldið sig. Rússar hafa þó ávallt þvertekið fyrir að þeir séu að undirbúa innrás en á sama tíma hafa þeir einnig sakað stjórnvöld í Úkraínu um að hyggja á árás á aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins.
Á blaðamannafundi í gærkvöldi kvaðst Joe Biden Bandaríkjaforseti vera fullviss um að Vladímír Pútín forseti Rússlands væri búinn að taka ákvörðun um að gera innrás í Úkraínu. Þótti honum líklegt að árásin myndi hefjast á næstu dögum.
Sagði hann að allar fregnir sem bærust nú frá austurhluta Úkraínu um árásir af hálfu Úkraínumanna væru í samræmi við þær aðferðir sem Rússar hafa áður beitt til þess að réttlæta árásir á Úkraínu.
Taldi hann einnig líklegt að Rússar myndu gera atlögu að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, en íbúar hennar telja um 2,8 milljónir.