Örlagarík atkvæðagreiðsla í kvöld

Borgarstarfsmenn hreinsa til fyrir framan þinghúsið.
Borgarstarfsmenn hreinsa til fyrir framan þinghúsið. AFP

Klukk­an átta í kvöld mun kanadíska þingið greiða at­kvæði um neyðarlög­in sem sett voru á til að kljást við mót­mæli sem hafa staðið yfir frá því í janú­ar. Bú­ist er við að kosn­ing­in verði stjórn­völd­um í vil.

Í kvöld renn­ur út gild­is­tími lag­anna, en þau gefa heim­ild til þess að koma í veg fyr­ir að mót­mæli geti hamlað um­ferð manna og bíla og þar með raskað gangi sam­fé­lags­ins.

Íhalds­menn á þing­inu eru harðir á því að lög­in séu brot á mann­rétt­ind­um, en stjórn­ar­liðar telja ekki svo vera. Bú­ist er við að at­kvæðagreiðslan falli stjórn­völd­um í vil.

Ef stjórn­ar­liðar hafa bet­ur má bú­ast við að neyðarlög­in verði í gildi fram að miðjum mars, en ef stjórn­ar­and­stæðing­ar hafa bet­ur munu regl­ur neyðarlag­anna verða lagðar af sam­stund­is.

Upp­hafið

Upp­haf mót­mæl­anna má rekja til mik­ill­ar óánægju vegna harðra aðgerða vegna kór­ónafar­ald­urs­ins. Vöru­bíl­stjór­ar sem ferðuðust milli Ottawa og Detroit voru ósátt­ir við að þurfa bólu­setn­ing­ar­skír­teini til að geta sinnt vinnu sinni, en bæði Kan­ada og Banda­rík­in hafa þær regl­ur þegar farið er yfir landa­mær­in.

Í mikl­um kulda 23. janú­ar safnaðist sam­an hóp­ur fólks víða um Kan­ada sem sagðist ekki fara fet fyrr en sótt­varn­araðgerðum stjórn­valda væri hætt. Mót­mæl­end­ur kölluðu sig boðbera frels­is­ins og aðgerðir stjórn­valda væru óá­sætt­an­leg­ar.

Föstu­dag­inn 28. janú­ar stöðvuðu vöru­bíla­lest­ir á veg­um mót­mæl­enda um­ferð víða, m.a. í Ottawa og næsta dag gengu þúsund­ir manna að þing­hús­inu og bílaf­laut­ur glumdu.

Mót­mæl­in, sem lagt hafði verið upp með að yrðu friðsam­leg, fóru að taka á sig aðeins aðra mynd og ein­hver minni­hluti í hópn­um hafði uppi hat­ursorðræðu gegn minni­hluta­hóp­um og skreyttu sig hakakross­um. Mót­mæl­end­ur fóru ekki eft­ir regl­um um grímu­notk­un, enda að mót­mæla þeim, og stjórn­völd lögðu til að fyr­ir­tæki í kring­um þing­húsið lokuðu starf­sem­inni af heilsu­fars­ástæðum.

Kanadíski fáninn og plastblóm á vegatálma þar sem verið að …
Kanadíski fán­inn og plast­blóm á vegatálma þar sem verið að hreinsa upp eft­ir mót­mæl­in. AFP

Mót­mæl­end­ur í miðborg­inni

Sunnu­dag­ur­inn 30. janú­ar hófst með bílaf­lauti og lát­um mót­mæl­enda og bæði brýr og göt­ur voru lokaðar. Lög­reglu­yf­ir­völd töldu að mót­mæl­in gætu haldið áfram dög­um sam­an, en ekk­ert leyfi hafði feng­ist fyr­ir mót­mæl­un­um, sem hefð er fyr­ir í Kan­ada.

Á mánu­dag­inn 31. janú­ar neitaði for­sæt­is­ráðherr­ann Just­in Trudeau að hitta full­trúa mót­mæl­enda á þeim for­send­um að þeir væru að dreifa hat­ursáróðri og væru á móti vís­ind­um.

Borg­ar­stjór­inn, Jim Wat­son, sagði að ekki væri mögu­legt eins og staðan væri að koma mót­mæl­end­um frá miðborg­inni og sagði að þessi staða væri vanda­mál alls lands­ins, ekki bara borg­ar­inn­ar. Trudeau flúði með fjöl­skyldu sína frá borg­inni af ör­ygg­is­ástæðum vegna mót­mæl­anna.

Mót­mæl­end­ur, sem sum­ir sögðu hafa samúð með erfiðleik­um fyr­ir­tækja­eig­anda vegna mót­mæl­anna, töldu samt að ábyrgðin væri stjórn­valda og hörku þeirra í sótt­varn­araðgerðum. Mót­mæl­end­ur hófu pen­inga­söfn­un á GoFundMe síðunni en eig­end­ur síðunn­ar ákváðu að loka söfn­un­inni viku síðar.

Neyðarástandi lýst yfir

Sunnu­dag­inn 6. fe­brú­ar var neyðarástandi lýst í borg­inni og borg­ar­stjór­inn sagði að ástandið væri það versta sem hefði komið fyr­ir íbúa borg­ar­inn­ar. Kallað var eft­ir auk­inni lög­gæslu og harðari aðgerðum gegn mót­mæl­end­um.

Dag­inn eft­ir var sett bann á bílaf­lautið næstu 10 dag­ana, en dóm­ar­inn sagði að það væri samt ekki bann á mót­mæl­in sem slík, en hávaðanum sem hafði verið í borg­inni í 11 daga yrði að linna. Lög­regl­an fékk einnig leyfi til að hand­taka alla þá sem virtu bannið að vett­ugi og þeir fengu háar sekt­ir.

Lög­regl­an átti þó erfitt með að hafa hem­il á stöðunni og 12. fe­brú­ar jókst mann­fjöld­inn enn meir, þegar mót­mæl­in höfðu verið dæmd ólög­leg og neyðarlög sett á sem heim­ilaði lög­regl­unni að ganga miklu harðar fram gegn mót­mæl­end­um.

Mót­mæl­end­ur ákváðu þá að loka Ambassa­dor brúnni sem er lyk­ilæð sam­skipta Kan­ada við Banda­rík­in frá Windsor í Ont­ario til Detroit í Banda­ríkj­un­um. Joe Biden, Banda­ríkja­for­seti, sagði að mót­mæl­in væru far­in að hafa áhrif á banda­rísk fyr­ir­tæki og mikl­ir viðskipta­hags­mun­ir væru í húfi. Press­an á Trudeau að leysa málið jókst.

Harðar lög­regluaðgerðir og friður í aug­sýn

Lög­regl­an hóf harðari aðgerðir í síðustu viku og um helg­ina sauð upp úr þegar kom til mik­illa átaka í miðbæn­um og lög­reglu­menn hand­tóku hátt í 200 manns og brutu rúður vöru­bíla til að geta dregið þá af vett­vangi.

Á sunnu­dag­inn hafði lög­reglu tek­ist að draga alla vöru­bíl­ana af svæðinu, og friður ríkti loks í miðbæn­um. Eins og fleiri ríki hafa Kan­ada­menn ákveðið að létta á sótt­varn­ar­regl­um vegna kór­ónafar­ald­urs­ins sem án efa hef­ur hjálpað.

Eft­ir ástandið er samt mörg­um spurn­ing­um ósvarað um rétt­indi til mót­mæla, hvort mót­mæl­end­ur fóru yfir strikið og stjórn­völd hafi orðið að bregðast við, eða hvort stjórn­völd hömluðu borg­ara­leg­um rétt­ind­um mót­mæl­enda. Því er áhuga­vert að sjá hvað kem­ur út úr at­kvæðagreiðslunni í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert