Klukkan átta í kvöld mun kanadíska þingið greiða atkvæði um neyðarlögin sem sett voru á til að kljást við mótmæli sem hafa staðið yfir frá því í janúar. Búist er við að kosningin verði stjórnvöldum í vil.
Í kvöld rennur út gildistími laganna, en þau gefa heimild til þess að koma í veg fyrir að mótmæli geti hamlað umferð manna og bíla og þar með raskað gangi samfélagsins.
Íhaldsmenn á þinginu eru harðir á því að lögin séu brot á mannréttindum, en stjórnarliðar telja ekki svo vera. Búist er við að atkvæðagreiðslan falli stjórnvöldum í vil.
Ef stjórnarliðar hafa betur má búast við að neyðarlögin verði í gildi fram að miðjum mars, en ef stjórnarandstæðingar hafa betur munu reglur neyðarlaganna verða lagðar af samstundis.
Upphaf mótmælanna má rekja til mikillar óánægju vegna harðra aðgerða vegna kórónafaraldursins. Vörubílstjórar sem ferðuðust milli Ottawa og Detroit voru ósáttir við að þurfa bólusetningarskírteini til að geta sinnt vinnu sinni, en bæði Kanada og Bandaríkin hafa þær reglur þegar farið er yfir landamærin.
Í miklum kulda 23. janúar safnaðist saman hópur fólks víða um Kanada sem sagðist ekki fara fet fyrr en sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda væri hætt. Mótmælendur kölluðu sig boðbera frelsisins og aðgerðir stjórnvalda væru óásættanlegar.
Föstudaginn 28. janúar stöðvuðu vörubílalestir á vegum mótmælenda umferð víða, m.a. í Ottawa og næsta dag gengu þúsundir manna að þinghúsinu og bílaflautur glumdu.
Mótmælin, sem lagt hafði verið upp með að yrðu friðsamleg, fóru að taka á sig aðeins aðra mynd og einhver minnihluti í hópnum hafði uppi hatursorðræðu gegn minnihlutahópum og skreyttu sig hakakrossum. Mótmælendur fóru ekki eftir reglum um grímunotkun, enda að mótmæla þeim, og stjórnvöld lögðu til að fyrirtæki í kringum þinghúsið lokuðu starfseminni af heilsufarsástæðum.
Sunnudagurinn 30. janúar hófst með bílaflauti og látum mótmælenda og bæði brýr og götur voru lokaðar. Lögregluyfirvöld töldu að mótmælin gætu haldið áfram dögum saman, en ekkert leyfi hafði fengist fyrir mótmælunum, sem hefð er fyrir í Kanada.
Á mánudaginn 31. janúar neitaði forsætisráðherrann Justin Trudeau að hitta fulltrúa mótmælenda á þeim forsendum að þeir væru að dreifa hatursáróðri og væru á móti vísindum.
Borgarstjórinn, Jim Watson, sagði að ekki væri mögulegt eins og staðan væri að koma mótmælendum frá miðborginni og sagði að þessi staða væri vandamál alls landsins, ekki bara borgarinnar. Trudeau flúði með fjölskyldu sína frá borginni af öryggisástæðum vegna mótmælanna.
Mótmælendur, sem sumir sögðu hafa samúð með erfiðleikum fyrirtækjaeiganda vegna mótmælanna, töldu samt að ábyrgðin væri stjórnvalda og hörku þeirra í sóttvarnaraðgerðum. Mótmælendur hófu peningasöfnun á GoFundMe síðunni en eigendur síðunnar ákváðu að loka söfnuninni viku síðar.
Sunnudaginn 6. febrúar var neyðarástandi lýst í borginni og borgarstjórinn sagði að ástandið væri það versta sem hefði komið fyrir íbúa borgarinnar. Kallað var eftir aukinni löggæslu og harðari aðgerðum gegn mótmælendum.
Daginn eftir var sett bann á bílaflautið næstu 10 dagana, en dómarinn sagði að það væri samt ekki bann á mótmælin sem slík, en hávaðanum sem hafði verið í borginni í 11 daga yrði að linna. Lögreglan fékk einnig leyfi til að handtaka alla þá sem virtu bannið að vettugi og þeir fengu háar sektir.
Lögreglan átti þó erfitt með að hafa hemil á stöðunni og 12. febrúar jókst mannfjöldinn enn meir, þegar mótmælin höfðu verið dæmd ólögleg og neyðarlög sett á sem heimilaði lögreglunni að ganga miklu harðar fram gegn mótmælendum.
Mótmælendur ákváðu þá að loka Ambassador brúnni sem er lykilæð samskipta Kanada við Bandaríkin frá Windsor í Ontario til Detroit í Bandaríkjunum. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, sagði að mótmælin væru farin að hafa áhrif á bandarísk fyrirtæki og miklir viðskiptahagsmunir væru í húfi. Pressan á Trudeau að leysa málið jókst.
Lögreglan hóf harðari aðgerðir í síðustu viku og um helgina sauð upp úr þegar kom til mikilla átaka í miðbænum og lögreglumenn handtóku hátt í 200 manns og brutu rúður vörubíla til að geta dregið þá af vettvangi.
Á sunnudaginn hafði lögreglu tekist að draga alla vörubílana af svæðinu, og friður ríkti loks í miðbænum. Eins og fleiri ríki hafa Kanadamenn ákveðið að létta á sóttvarnarreglum vegna kórónafaraldursins sem án efa hefur hjálpað.
Eftir ástandið er samt mörgum spurningum ósvarað um réttindi til mótmæla, hvort mótmælendur fóru yfir strikið og stjórnvöld hafi orðið að bregðast við, eða hvort stjórnvöld hömluðu borgaralegum réttindum mótmælenda. Því er áhugavert að sjá hvað kemur út úr atkvæðagreiðslunni í kvöld.