Þrír látnir eftir árásir í Úkraínu í dag

Úkraínskir hermenn í eftirlitsferð í bænum Novoluhanske.
Úkraínskir hermenn í eftirlitsferð í bænum Novoluhanske. AFP

Tveir úkraínskir hermenn og einn óbreyttur borgari eru látnir eftir sprengjuárásir í Úkraínu í dag. Frá þessu greina úkraínsk stjórnvöld.

Að sögn ríkislögreglustjórans í Úkraínu létust hermennirnir tveir í þorpinu Zaitseve, sem er staðsett um 30 kílómetra norður af Donetsk-héraði í austanverðri Úkraínu, en hluti héraðsins er á valdi rússneskra aðskilnaðarsinna. Þá hafi þrír aðrir særst í árásinni.

Óbreytti borgarinn hét Roman Shyyrokiy og var 51 árs. Er hann sagður hafa látist í annarri sprengjuárás sem gerð var á heimabæ hans Novoluganske, um 10 kílómetrum frá staðnum þar sem hermennirnir tveir létust, að því er fréttaveita AFP greinir frá.

Fyrsta skipti á árinu

Um er að ræða  fyrsta skiptið á þessu ári sem almennur borgari lætur lífið í landinu vegna átakanna milli Úkraínu og rússneskra aðskilnaðarsinna, en yfir síðastliðin átta ár hafa átökin kostað fleiri en 14.000 manns lífið og neytt 1,5 milljónir manna til að yfirgefa heimili sín.

Samanlagt sjö úkraínskir hermenn hafa látið lífið í átökunum í landinu á þessu ári, að því er úkraínsk stjórnvöld greina frá.

Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti sagðist fyrir skömmu myndu viður­kenna sjálf­stæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna, sem studd­ir eru leynt og ljóst af Rússlandi, í aust­ur­hluta Úkraínu.

Greint er frá þessu í yf­ir­lýs­ingu frá Kreml­inni. Tekið er fram að Pútín hafi þegar upp­lýst leiðtoga Frakk­lands og Þýska­lands um þessa ákvörðun sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert