Kanadíska þingið gekk til atkvæðagreiðslu í gærkvöldi um neyðarlög sem sett voru vegna þriggja vikna borgaralegra mótmæla í Kanada. Atkvæði fóru þannig að 185 greiddu atkvæði með því að beita neyðarlögunum en 151 var á móti.
Justin Trudeau forsætisráðherra landsins setti lögin á í síðustu viku.
Ekki kom á óvart að atkvæði féllu eftir pólitískum línum og voru hægrimenn andvígir beitingu laganna en stjórnarliðar og stuðningsmenn þeirra hlynntir aðgerðunum.
Trudeau hafði í ræðu varið beitingu laganna fyrr í gær og sagði að ástandið í landinu væri enn viðkvæmt og það yrði að koma í veg fyrir hömlun umferðar í landinu en lofaði um leið að lögin yrðu ekki í gildi lengur en væri algjörlega nauðsynlegt.
Neyðarlögin sem samþykkt voru á þinginu árið 1988 gefa stjórnvöldum mikið svigrúm til aðgerða ef neyðarástand skapast í landinu, en 30 daga rammi er gefinn til að beita lögunum ef þau eru ekki endurnýjuð sérstaklega.
Lögin kveða á um að stjórnvöld hafi heimild til þess að banna fjöldasamkomur, hamla umferð á skilgreindum svæðum auk þess að stjórnvöld fá vald til þess að frysta bankareikninga, svo þau gefa stjórnvöldum mjög mikið vald og eru umdeild eftir því.
Fram kom á laugardag að stjórnvöld hefðu fryst 76 bankareikninga tengda mótmælunum og þannig fryst 3,2 milljónir kandadadollara. Að sögn yfirvalda hafði reikningum áhrifamanna í mótmælunum verið læst og þeirra vörubílstjóra sem hefðu neitað að yfirgefa svæðið.
Chrystia Freeland fjármálaráðherra Kanada sagði að það væri auðveld leið að opna reikningana aftur. „Hættið að taka þátt í að hamla allri umferð.“
Þetta er í fyrsta skipti sem lögunum er beitt í Kanada.