Bretland herðir refsiaðgerðir og bannar Aeroflot

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, kynnti rétt í þessu á þinginu frumvarp um hertar refsiaðgerðir gegn Rússum sem kristallast í því að gera þeim viðskipti erfið og banna flugumferð flugfélagsins Aeroflot innan lofthelgi sinnar.

Hann tilkynnti að fjármagn allra stærstu rússnesku bankanna í landinu yrði fryst, þannig að þeir gætu ekki nálgast peninga eða neinar greiðslur í gegnum Bretland. Það þýðir m.a. algjöra frystingu VTB-bankans.

Lög verða sett til að stöðva alla lánafyrirgreiðslu og fjáröflun stærri rússneskra fyrirtækja og reikningar verða frystir hjá meira en 100 einstaklingum og fyrirtækjum.

Líka Hvíta-Rússland

Að auki verður rússneska flugfélaginu Aeroflot bannað að lenda í Bretlandi, eins og áður sagði.

Tvíhliða viðskiptaleyfi sem gætu verið notuð til hernaðarviðskipta verða stöðvuð og á næstu dögum mun Bretland stöðva allan útflutning til Rússa á hátæknivörum og olíuhreinsunarbúnaði.

Takmörk verða fyrir innlögnum Rússa í breska banka og verið er að íhuga að stöðva aðgang þeirra að SWIFT-bankakerfinu. Sambærilegar refsiaðgerðir munu gilda um Hvíta-Rússland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka