Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi í morgun að Rússar séu farnir að beina vopnum sínum að íbúðabyggðum. Hann biðlaði til vestrænna ríkja að gera meira til þess að binda enda á árás Rússa. Zelenskí sagði jafnframt 137 úkraínskir ríkisborgarar, bæði hermenn og almennir borgarar hafi fallið í átökum gær.
„Þeir [þ.e. rússneskar hersveitir] segja að almennir borgarar séu ekki skotmark þeirra en það er enn ein lygin. Í raun gera þeir ekki greinarmun á svæðum sem þeir athafna sig á,“ sagði Zelenskí.
Þónokkrar sprengingar heyrðust í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu í nótt, sem og skothríðir. Úkraínskir embættismenn segja að rússneskar hersveitir hafi ráðist á borgina með eldflaugum. Útlit er fyrir að átök þar hafi færst í aukana.
Að minnsta kosti ein íbúðabygging Kænugarði skemmdist mikið í nótt. Þar særðust þrír.
Þá takast úkraínskar og rússneskar hersveitir nú á á flugvelli í útjaðri Kænugarðs. Ef rússneskar hersveitir ná honum á sitt vald gæti hann orðið stökkbretti fyrir frekari árásir þeirra.
Forsetaembætti Úkraínu tilkynnti í gærkvöldi að rússneskar hersveitir hefðu náð stjórn á Tsjernóbyl-kjarnorkuverinu sem er staðsett norðarlega í Úkraínu, nálægt landamærum Hvíta-Rússlands en einungis í 93 kílómetra fjarlægð frá Kænugarði. Bandarísk yfirvöld segja að úkraínskir hermenn séu í gíslingu þar.
Frá því að innrásin hófst hefur Úkraína reynt að verjast rússneskum hersveitum frá þremur aðskildum vígstöðvum; norður, suður og austur af landinu, þar sem bardagar hafa verið með þeim hörðustu.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur varið ákvörðun sína um innrás. Segir hann að hún hafi verið nauðsynlegt til þess að verja Rússland.
Zelenskí sagði að úkraínskar hersveitir geri nú „allt sem í þeirra valdi stendur“ til þess að verjast og að Úkraínumenn hafi sýnt mikið hugrekki. Þá hvatti hann Rússa til þess að mótmæla innrásinni og kallaði eftir vopnahléi.
„Við Rússa sem hafa mótmælt innrásinni vil ég segja að við sjáum ykkur. Þetta þýðir að þið hafið heyrt í okkur. Þetta þýðir að þið trúið okkur. Berjist fyrir okkur. Berjist gegn stríði,“ sagði Zelenskí í ávarpi sínu í morgun og skipti yfir á rússnesku þegar hann ávarpaði rússnesku þjóðina.
Fréttin hefur verið uppfærð