„Þetta getur alveg farið til andskotans“

Innrás Rússa hefur víða verið mótmælt.
Innrás Rússa hefur víða verið mótmælt. AFP

„Við erum búin að fara þrisvar niður í sprengjukjallara frá því klukkan fimm í morgun þegar sírenur hafa farið í gang,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljós­mynd­ar­i og mynd­list­armaður, sem bú­sett­ur er í Kænug­arði. Hann býst við erfiðum degi og telur miklar líkur á því að rússneski herinn komist inn í höfuðborg Úkraínu í dag.

Vinkona eiginkonu hans, sem dvelur hjá þeim, vakti hjónin klukkan fimm í morgun þegar hún heyrði sprengingu og frá því hafa þau farið upp og niður; niður í kjallara þegar sírenur fara í gang og upp í íbúð aftur þegar það er talið öruggt.

Óskar telur stöðuna núna þannig að ekki sé verið að skjóta á svæði þar sem hann býr en það er í miðbænum í hverfi það sem mörg sendiráð eru staðsett. 

Rússnesku hermennirnir ungir og óreyndir

„Það hafa hins vegar verið átök í suðurhluta borgarinnar og eldflaugaárásir gerðar. Loftvarnirnar virðast gera sitt gagn en þær hafa skotið niður þyrlur og eldflaugar,“ segir Óskar. Hann telur til að mynda að forsetahöllin sé mjög vel varin upp á þetta að gera.

Óskar Hallgrímsson.
Óskar Hallgrímsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rétt fyrir norðan Kænugarð er herflugvöllur þar sem hart er barist en Rússar reyna að ná honum á sitt vald.

„Ég hef fengið fregnir af því að rússnesku landgönguliðarnir sem eru á leið hingað séu ungir hermenn, ekki þessir reyndu hermenn sem hafa verið í austurhlutanum. Það er greinilegt að Rússland hefur sett langmest púðrið í austurhlutann og ná einnig ekki að fara jafn hratt yfir og þeir bjuggust við,“ segir Óskar.

Telur að dagurinn verði brútal

Sjálfur bjóst Óskar við því að rússneski herinn yrði kominn inn í höfuðborgina í nótt en það hefur ekki gerst. Hann gerir ráð fyrir því að dagurinn í dag verði erfiður.

„Ég held að dagurinn í dag verði brútal. Fullt af fólki er að láta sig hverfa, meðal annars fólk sem ég hélt að myndi aldrei láta sig hverfa. Það er búist við því að rússneski herinn komist inn í borgina í dag.“

Spurður hvort hann og eiginkona hans ætli þrátt fyrir það að halda kyrru fyrir í borgina segir Óskar möguleika þeirra til brottfarar takmarkaða.

Rússar hafa gert eldflaugaárásir á úthverfi höfuðborgarinnar.
Rússar hafa gert eldflaugaárásir á úthverfi höfuðborgarinnar. AFP

„Við getum farið út á lestarstöð en það er boðið upp á fríar ferðir til Lviv. Ég veit að ef við færum þangað núna þá er stappað þar og síðan þegar við komum á áfangastað er ekki alveg vitað hvað verður,“ segir Óskar og heldur áfram:

„Þar er boðið upp á rútur til Póllands, í hinar og þessar borgir. Pólsku landamærin eru galopin svo það er alveg möguleiki. Ég er ekkert það hræddur um öryggi mitt, eins og er. Ég ætla að halda áfram að mynda og vera hress.“

„Þetta er allt fucked up“

Hann vonast til til þess að Rússar dragi hersveitir sínar til baka þegar og ef þeir ná einhverjum betri tökum á austurhluta Úkraínu. Hins vegar geti allt farið á versta veg:

„Þetta er allt fucked up og er á leiðinni í eitthvað svakalegt. Þetta getur alveg farið til andskotans. Við vonumst til þess hérna að um leið og Rússar eru búnar að taka yfir austurhlutann almennilega þá dragi þeir herdeildirnar til baka úr borgunum. Þeir eru ekki með nægilegan herafla til að halda neinum borgum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert