Segir nasistana í Úkraínu almenna borgara

mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikhail Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, segir þau nasistaöfl sem Rússar vilji losna við í Úkraínu, samanstanda af sjálfboðaliðum sem beri ábyrgð á þjóðarmorðum á Donbas-svæðinu í austurhluta landsins.

Ekki sé um að ræða hluta af herliði Úkraínu, heldur almenna borgara sem hafi verið hampað sem hetjum.

Í samtali við mbl.is segir hann þessi nasistaöfl þrífast í skjóli yfirvalda.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur notað sömu fullyrðingar til að réttlæta innrás í Úkraínu.

Myndir sendar til íslenskra stjórnvalda

Segist Noskov vera með myndir sem sýni fram á að þjóðarmorð hafi verið framin og að þær hafi meðal annars verið sendar til forseta Íslands, forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Myndirnar sýni til að mynda fjöldagrafir á Donbas-svæðinu í austurhluta Úkraínu, sem héruðin Donetsk og Luhansk tilheyra. Rétt er þó að taka fram að engar haldbærar vísbendingar hafa komið fram sem styðja fullyrðingar Rússa um þjóðarmorð.

„Það er meginástæða þessara hernaðaraðgerða núna, að brjóta á bak herinn í Úkraínu, sem og að losna við nasistana sem eru þar. Aðeins þannig verður hægt að tryggja öryggi íbúa á Donbas-svæðinu, sem og Rússlands,“ segir Noskov.

Mikhail Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi.
Mikhail Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orð Zelenskí hafi ekki mikla merkingu

Spurður hvernig eigi að losna við nasistana segir Noskov ætlunina að fá þá til að gefast upp eða taka þá fanga. Þá komi jafnvel til greina að úkraínsk yfirvöld grípi inn í. Það sé enn möguleiki.

Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, hefur bent á að hann sé sjálfur gyðingur og að milljónir Úkraínumanna hafi týnt lífi í baráttunni gegn nasismanum. Hann hefur spurt hvernig það geti staðist að hann styðji nasista eða nasistaöfl.

Noskov segist hafa heyrt yfirlýsingar Zelenskí en segir orð hans ekki hafa mikla merkingu. „Við verðum að horfa á það sem hann raunverulega gerir, ekki bara orð hans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert