„Það voru svaka læti í nótt, alveg svakaleg læti. Þetta var þvílík stórskotahríð,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og myndlistarmaður, sem búsettur er í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.
Harðir bardagar voru í Kænugarði í nótt en úkraínskar hersveitir stóðust áhlaup Rússa sem reyndu að ná höfuðborginni á sitt vald.
Óskar segir að hann og eiginkona hans, sem búsett eru í miðborginni, hafi verið uppgefin í gærkvöldi og náð að sofna fyrir miðnætti. Hann hafi vaknað öðru hvoru í nótt við mestu sprengjusmellina.
„Svo rétt fyrir sex í morgun var allt brjálað hérna. Um leið og sólin kom upp þagnaði allt og hefur verið þögult síðan,“ segir Óskar.
Hann segir að Rússar hafi reynt að senda flugskeyti á Zhuliani-flugvöll í suðvesturhluta borgarinnar í nótt en sú flaug hafnaði á íbúðablokk í grennd við flugvöllinn. Óskar segir að margir hafi verið búnir að yfirgefa blokkina og því hafi sem betur fer ekkert mannfall orðið.
Hann bendir á að úkraínski herinn sé að standa sig mjög vel, mun betur en Rússar bjuggust líkast til við og telur að Rússum gangi verr en þeir bjuggust við.
Ekkert fararsnið er á Óskari og eiginkonu hans en hann telur öruggara að að bíða í miðborginni en að leggja af stað út í óvissuna. Ferðalagið frá höfuðborginni til vesturhluta Úkraínu taki um það bil sólarhring og óvíst sé hvort allir komist á leiðarenda.
„Við tókum ákvörðun um það í gær að fara ekki nema við séum 100% neydd til þess. Við erum á það öruggum stað hérna og myndum bara enda á vergangi í Vestur-Úkraínu. Við myndum leggja okkur í miklu meiri hættu við það,“ segir Óskar.