Bandaríkin hafa áreiðanlegar upplýsingar um að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé að verða sífellt óánægðari með hernað sinn í Úkraínu.
Þetta hefur NBC-fréttastofan eftir heimildum sínum innan bandaríska stjórnkerfisins.
Tveir embættismenn og einn fyrrverandi embættismaður tjá fréttastofunni að Pútín hafi ausið úr skálum reiði sinnar yfir fólk í sínum innsta hring, sökum þess hvernig herferðin hefur gengið og einnig vegna fordæminga frá alþjóðasamfélaginu.
Embættismennirnir vara við því að Pútín geti aukið enn á ofbeldið vegna þessa.
Öldungadeildarþingmaðurinn Mark Warner, sem fer fyrir njósnamálanefnd bandaríkjaþings, segir ljóst að kraftur úkraínsku andstöðunnar hafi komið Pútín í opna skjöldu.
„Hann er búinn að einangra sig. Hann hefur ekki verið mikið í Kreml. Þú færð minni og minni ráðgjöf, og þessi ráðgjöf kemur frá undirlægjum,“ segir hann í samtali við NBC.
„Ég hef áhyggjur af því að hann sé kominn út í horn. Ég hef áhyggjur af því að það er engin augljós frárein [e. exit ramp].“