Stjórnvöld í Kreml hafa lagt á ráðin um hvernig megi brjóta á bak aftur baráttuanda Úkraínumanna, svo að þeir veiti ekki mótspyrnu þegar borgir landsins falla undir krumlur Kremlar.
Þetta hefur Bloomberg-fréttaveitan eftir embættismanni í evrópskri leyniþjónustu.
Í áformunum felst meðal annars að tekið verði hart á hvers kyns mótmælum, andstæðingar rússneskra yfirvalda verði teknir höndum.
Þá munu Rússar mögulega grípa til þess að taka fólk af lífi á almannafæri, að því er fréttaveitan hefur eftir embættismanninum, sem tjáði sig í skjóli nafnleyndar.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur engin merki sýnt um að hann vilji láta linna þeirri innrás sem hófst á fimmtudag fyrir viku.