Þrjú misheppnuð morðtilræði á einni viku

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu. AFP

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hefur nú tekist að koma sér undan að minnsta kosti þremur morðtilræðum á síðustu sjö dögum. Vel hefur tekist að spá fyrir um aðgerðir þeirra sem vilja ráða forsetann af dögum, m.a. vegna upplýsingaleka frá rússnesku leynisþjónustunni (FSB). Þetta herma heimildir Times.

Áður hefur verið greint frá því að úrvalssveit launmorðingja frá Tsétséníu væri á höttunum eftir forsetanum en Oleksí Danílov, yf­ir­maður þjóðarör­ygg­is og -varn­ar­ráðs Úkraínu, sagði fyrr í vikunni að sveitunum hefði verið útrýmt. Sveit­in hafði skipst í tvo hópa og var annar þeirra hand­samaður og hinn lenti í átök­um við úkraínskt herlið.

Mikið mannfall meðal Wagner-hópsins

Svipaða sögu er að segja af Wagner-hópnum sem er hóp­ur málaliða á veg­um eins af nán­ustu banda­mönn­um Pútíns. Var málaliðunum ætlað að ráða forsetann af dögum. Þeim var einnig skipað fyrir um að myrða þá sem skipa ríkisstjórn forsetans og leggja þar með grundvöll fyrir Vladimís Pútín Rússlandsforseta að hirða völdin í landinu.

Samkvæmt heimildum Times hefur þó mikið mannfall verið í Wagner-hópnum. Á það að hafa komið þeim að óvörum hvað Úkraínumönnum hefur tekist vel að spá fyrir um aðgerðir þeirra.

Vilja ekki taka þátt í þessu blóðuga stríði

Á laugardaginn tókst að stöðva morðtilraun í útjaðri Kænugarðs sem launmorðingjarnir frá Tsétséníu stóðu að baki.

Danílov sagði að rússneskir njósnarar hefðu komið með ábendingu um fyrirhuguðu árásina. Úkraínskir embættismenn fullyrtu einnig að upplýsingarnar sem leiddu til dauða launmorðingjanna hefðu komið frá fulltrúum innan FSB sem eru andvígir innrás Rússa.

„Ég get sagt að við höfum fengið upplýsingar frá FSB, frá þeim sem vilja ekki taka þátt í þessu blóðuga stríði,“ sagði Danílov. „Þökk sé þessu hefur úrvalssveitinni verið útrýmt sem kom hingað til þess að myrða forsetann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka