Tal um endalok Pútíns tálsýn

Er Vladimír Pútín Rússlandsforseti ósnertanlegur?
Er Vladimír Pútín Rússlandsforseti ósnertanlegur? AFP

„Það er mjög erfitt að sjá þessu stríði ljúka með einhvers konar sigri Pútíns, jafnvel þótt honum takist það sem hann ætlar sér – að ná Úkraínu á sitt vald og koma á fót leppstjórn. Það getur vel verið að honum takist að búa til eitthvert áhrifasvæði með Hvíta-Rússlandi og Úkraínu en það breytir ekki því að hann verður mjög einangraður og veikur á alþjóðavettvangi.“

Þetta segir Rósa Magnúsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

– Sumir hafa talað um að þetta sé upphafið að endalokum Pútíns á valdastóli. Hvernig sérð þú það?

„Ég sveiflast dálítið þegar kemur að því. Þegar maður heyrir fólk tala með þessum hætti fyllist maður von en ég hef líka talað við fólk sem vann innan stjórnkerfisins í tíð Medvedevs, og það fullyrðir við mig að allt tal um endalok Pútíns sé tálsýn. Því miður. Það verður ekki hlaupið að því að koma Pútín frá völdum.“

Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur.
Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon


Erfitt að taka mark á tölum um stuðning

– Hvar stendur rússneska þjóðin? Hversu hátt hlutfall hennar styður þetta stríð?

„Sumir halda því fram að Pútín sé með nauman meirihluta þjóðarinnar á bak við sig en ég treysti mér ekki til að fullyrða um það. Það getur í raun ekki nokkur maður gert. Það er mjög erfitt að taka mark á tölum um stuðning við einræðisherra í alræðisríki. Við erum að heyra sögur af því að lögreglan banki upp á hjá fólki og segist hafa heyrt að viðkomandi sé á móti Pútín. Það getur með öðrum orðum verið hættulegt að lýsa yfir því að maður sé á móti honum enda þótt það sé í raun og veru þannig. Stuðningur í skoðanakönnunum þarf því ekki að þýða neitt annað en að fólk sé hrætt við leiðtogann.“

– En einhverjir styðja hann samt, ekki satt?

„Jú, auðvitað styðja margir Rússar Pútín í raun og veru. Það er ekki nokkur vafi. En það er samt andspyrna og mótmæli sem eiga vonandi bara eftir að vaxa, að því gefnu að fólk fái réttar upplýsingar um það sem er að gerast á vígstöðvunum og þegar almenningur fer að finna fyrir áhrifum efnahagsþvingana og annarra aðgerða. Gott dæmi um blekkingarnar er ræða Lavrovs í vikunni, þar sem hann sagði mögulega geta komið til kjarnorkustyrjaldar en þá væri það ekki Rússum að kenna, heldur Vesturlöndum fyrir að ráðast á Rússland. Þessu trúa margir.“

Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi sendiherra.
Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi sendiherra. mbl.is/Sigurður Jökull


Bara spádómar út í loftið

Gunnar Gunnarsson, sem var sendiherra Íslands í Moskvu 1994-98, vill ekki spá mikið í framtíð  Pútíns á valdastóli. Það sé einfaldlega ótímabært.

„Það eru bara spádómar út í loftið sem styðjast ekki við neinn raunveruleika. Það má ekki gleyma því að Pútín hefur ríkt í yfir tuttugu ár og hópurinn í kringum hann er mjög sterkur. Þessir menn hafa algjör tögl og hagldir í Rússlandi og ég sé ekki að það hafi breyst. Að því sögðu þá held ég að fái Rússar raunverulega mynd af því sem er að gerast, þá gætu hlutirnir átt eftir að breytast heima fyrir.“

– Er einhver leið til að tryggja það?

„Ekki sem ég þekki. En gleymum því samt ekki að veröldin hefur breyst og stjórnvöld geta ekki haft sömu áhrif á fjölmiðla og áður með tilkomu samfélagsmiðla.“

Gunnar segir augljóst að hinn almenni Rússi fái ekki rétta mynd af því sem raunverulega er að gerast í Úkraínu. Pútín hafi lagt mikla áherslu á að halda þeirri mynd að löndum sínum að Úkraínumenn eigi ekki þetta land, heldur Rússar. „Þessi ólíka hugmynd um Úkraínu, miðað við það sem þekkist á Vesturlöndum, er mjög mikilvægur punktur í þessu öllu saman. Við horfum á þetta með allt öðrum gleraugum en þeir.“

Gunnari þykir mjög alvarlegt að búið sé að draga kjarnavopn inn í umræðuna enda sé hryllilegt að hugsa þá hugsun til enda. „Ég skil alltaf óttann við kjarnavopn en það er svo hræðileg veröld að ég vil ekki vera með vangaveltur í þá veru.“

Nánar er rætt við Rósu og Gunnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert