Rússum verði vikið úr Interpol

Priti Patel á breska þinginu.
Priti Patel á breska þinginu. AFP

Þó nokkur vestræn ríki, þar á meðal Bretland og Bandaríkin, hafa krafist þess að alþjóðalögreglan, Interpol, reki Rússa úr samtökunum, að sögn breska innanríkisráðherrans Priti Patel.

Bretland, Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland hafa öll krafist „tafarlausrar lokunar á aðgangi Rússa að kerfum sínum“, tísti Patel í gær á Twitter.

Óskað var eftir ákvörðun framkvæmdastjórnar alþjóðalögreglunnar í málinu í þessari viku.

„Gjörðir Rússa eru bein ógn við öryggi almennings og alþjóðasamstarfs lögreglunnar,“ bætti Patel við.

Vestræn ríki hafa beitt Rússa refsiaðgerðum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist hafa séð „mjög áreiðanlegar fregnir“ um að Rússar hafi framið stríðsglæpi í innrásinni, sérstaklega varðandi meðferð á almennum borgurum.

Alls eru 194 þjóðir hluti af alþjóðalögreglunni og er hlutverk hennar að auðvelda samstarf gegn alþjóðlegum glæpum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka