Þó nokkur vestræn ríki, þar á meðal Bretland og Bandaríkin, hafa krafist þess að alþjóðalögreglan, Interpol, reki Rússa úr samtökunum, að sögn breska innanríkisráðherrans Priti Patel.
Bretland, Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland hafa öll krafist „tafarlausrar lokunar á aðgangi Rússa að kerfum sínum“, tísti Patel í gær á Twitter.
Óskað var eftir ákvörðun framkvæmdastjórnar alþjóðalögreglunnar í málinu í þessari viku.
„Gjörðir Rússa eru bein ógn við öryggi almennings og alþjóðasamstarfs lögreglunnar,“ bætti Patel við.
1/ Alongside counterparts from 🇺🇸 🇨🇦 🇦🇺 and 🇳🇿, I have written today calling on @INTERPOL_HQ and its Executive Committee to take a decision this week, in accordance with its rules, on the immediate suspension of Russia’s access to its systems.
— Priti Patel (@pritipatel) March 6, 2022
Vestræn ríki hafa beitt Rússa refsiaðgerðum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist hafa séð „mjög áreiðanlegar fregnir“ um að Rússar hafi framið stríðsglæpi í innrásinni, sérstaklega varðandi meðferð á almennum borgurum.
Alls eru 194 þjóðir hluti af alþjóðalögreglunni og er hlutverk hennar að auðvelda samstarf gegn alþjóðlegum glæpum.