Viðræður stóðust ekki væntingar Rússa

Vladimír Medenskí yfirmaður rússnesku sendinefndarinnar segir viðræðurnar í dag ekki …
Vladimír Medenskí yfirmaður rússnesku sendinefndarinnar segir viðræðurnar í dag ekki hafa borið árangur. AFP

Viðræður milli Rússa og Úkraínumanna þokast áfram en þriðju lotu þeirra, sem fór fram í Hvíta-Rússlandi, lauk fyrr í dag. Tvennum sögum fer af árangri þeirra.

Mikhaiolo Podolyak úkraínski forsetaráðgjafinn segir smávægilegan árangur, er varða útfærslur flóttamannaleiða úr borgunum, hafa náðst í samræðum við sendinefnd Rússa í dag.

Þá var mikil áhersla lögð á hvernig megi tryggja vopnahlé.

Uppfylltu ekki væntingar Rússa

Aðalsamningamaður Rússlands var þó ekki jafn jákvæður og sagði viðræðurnar ekki hafa staðist væntingar.

„Væntingar okkar í samningaviðræðunum voru ekki uppfylltar. Við vonum að í næsta skipti verði hægt að taka mikilvægara skref fram á við,“ sagði Vladimír Medinskí, yfirmaður rússnesku sendinefndarinnar, í sjónvarpsávarpi að loknum viðræðum.

Medenskí kvaðst vona að flóttaleiðir íbúa úr úkraínskum borgum verði opnaðar á morgun en hann lagði þó áherslu á að enn væri of snemmt að segja til um það með vissu.

„Við vonum að á morgun verði hægt að virkja flóttamannaleiðirnar. Úkraínska hliðin hefur gefið okkur orð sitt,“ sagði hann.

„En það er of snemmt að tala um eitthvað jákvætt,“ bætti hann við.

Leonid Slutsky yfirmaður utanríkismálanefndar rússneska þingsins, kvaðst vona að viðræðunum verði brátt haldið áfram. Hann var þó ekki bjartsýnn á að lokaniðurstaða væri í augsýn.

Höfnuðu leið til Rússlands og Hvíta-Rússlands

Í annarri lotu viðræðna sem fór fram í síðustu viku náðu Rússar og Úkraínumenn samkomulagi um að koma upp flóttamannaleiðum til að hægt yrði að flytja óbreytta borgara á brott heila á húfi.

Fyrr í dag hafnaði Úkraínu þó tilboði Moskvu um flóttamannaleiðir frá fjórum úkraínskum borgum, Karkív, Kænugarði, Maríupól og Sumí, sem myndu leiða til Rússlands og Hvíta-Rússlands.

Iryna Vereshchuk, varaforsætisráðherra Úkraínu, sagði tillöguna ekki ásættanlegan kost.

„Úkraínskir borgarar eru ekki að fara til Hvíta-Rússlands og svo taka flugvél þaðan til Rússlands,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert