Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, mun ávarpa neðri deild breska þingsins í gegnum fjarfundabúnað í dag.
Forseti breska þingsins, Lindsay Hoyle, tilkynnti um þetta fyrr í morgun. BBC greinir frá.
Sagði hann frá „sögulegri“ bón forsetans um að fá að ávarpa breska þingmenn beint. Ávarpið er á dagskrá klukkan 17 á staðartíma Greenwich.
Skjáum verður komið fyrir í þingsalnum þar sem ávarpið verður spilað.
Sagði Lindsay að hvern og einn einasta þingmann langaði að heyra beint frá Selenskí „sem mun tala í beinu streymi við okkur frá Úkraínu, svo að þetta er mikilvægt tækifæri fyrir þingið“.
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hefur þá skipulagt fundaröð með þjóðarleiðtogum Póllands, Ungverjalands, Slóvakíu og Tékklands.
Fundarröðin er ætluð til að ræða hvernig Bretland getur betur stutt við varnir í Mið-Evrópu.