Um 5.000 Úkraínumenn hafa verið fluttir frá borginni Súmí í norðausturhluta Úkraínu. Þar hafa rússneskar hersveitir sótt hart fram dögum saman. Rýmingin á að halda áfram í dag.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa sömuleiðis tilkynnt um tímabundin vopnahlé af mannúðarástæðum á fleiri stöðum, þar á meðal í höfuðborg Úkraínu, Kænugarði, og Maríupol.
Sameinuðu þjóðirnar segja að tvær milljónir manna hafi flúið Úkraínu síðan Rússar réðust þar inn. 1,2 milljónir manna hafa flúið til Póllands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Dimitrí Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, munu hittast í Tyrklandi í næstu viku. Er um að ræða fyrsta fundinn þeirra á milli síðan Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn.
Friðarviðræður á milli Úkraínu og Rússlands hafa hingað til ekki skilað árangri.