Skora á orkuframleiðsluríki heimsins

G7-ríkin skora á stóru orkuframleiðsluríki heimsins að fjölga orkuafhendingum.
G7-ríkin skora á stóru orkuframleiðsluríki heimsins að fjölga orkuafhendingum. KAREN BLEIER

G7-ríkin, þ.e. sjö stærstu efnahagsveldi heimsins, skoruðu í dag á stóru orkuframleiðsluríki heimsins að fjölga orkuafhendingum til að draga úr áhrifum af innrás Rússa í Úkraínu á orkuverð.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu orkumálaráðherra G7-ríkjanna.

Hafa miklar áhyggjur af heimilum og fyrirtækjum

„Við skorum á þau lönd sem framleiða olíu og gas að bregðast við á ábyrgan hátt og kanna getu þeirra til að fjölga orkuafhendingum á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega þar sem framleiðslan nær ekki fullri afkastagetu,“ segir í yfirlýsingunni.

Bættu þeir við að „nauðsynlegt væri að íhuga árangursríkar aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari hækkun á olíuverði“.

Í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn hefur heildsöluverð á olíu rokið upp og náði það methæðum í þessari viku.

Bandarísk og bresk stjórnvöld tilkynntu fyrr í vikunni að þau hyggðust hætta innflutningi á rússneskri orku í refsingarskyni gegn Rússum fyrir innrás þeirra inn í Úkraínu.

Orkumálaráðherrar G7-ríkjanna sögðust hafa „miklar áhyggjur“ af áhrifunum sem verðhækkanirnar munu hafa á heimili og fyrirtæki, sérstaklega í Evrópulöndunum en ekki síður í þróunarríkjum.

Þá sögðust þeir staðráðnir í að „vinna saman að því að tryggja fjölbreytni í orkugjöfum, birgðum og flutningsleiðum“ og undirstrikuðu vaxandi mikilvægi fljótandi jarðgass sem orkugjafa.

Ráðherrunum tókst þó ekki að ná samstöðu um viðskiptabann á rúsnesskar olíubirgðir og bentu einfaldlega á að sumar þjóðir hefðu tilkynnt um slíkt bann á meðan aðrar „efli sjálfsbjargarviðleitni sína þegar kemur að orku“.

Þá sögðust G7-ríkin einnig fordæma „allar aðgerðir sem skerði öryggi kjarnorkumannvirkja“ í Úkraínu eftir að fregnir bárust af því að rafmagn til kjarnorkuversins í Tsjernóbíl hafi rofnað og eldur kviknað í Saporisjía, stærsta kjarnorkuveri Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert