Segja handtöku borgarstjórans „stríðsglæp“

Höfuðstöðvar Utanríkisráðuneytisins í Úkraínu.
Höfuðstöðvar Utanríkisráðuneytisins í Úkraínu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Utanríkisráðuneyti Úkraínu birti í dag harðorða yfirlýsingu á Facebook þar sem það sagði handtöku rússneskra hersveita á Ivan Fedorov, borgarstjóra Melitopol, vera „stríðsglæp“.

Fyrr í kvöld greindi mbl.is frá því að Fedorov hafi sést á myndbandi vera leiddur af vopnuðum mönnum út úr stjórnarbyggingu í Melitopol í Úkraínu í dag og að hann væri ásakaður um að hafa framið hryðjuverkaglæp.

Utanríkisráðuneytið í Úkraínu segir handtökuna vera „mannrán“ og að hún væri ein af mörgum „grófum brotum rússneskra hersveita á viðmiðum og meginreglum alþjóðalaga, þar á meðal mannúðarlögum“.

Þá benti ráðuneytið á að í Genfarsáttmálanum og viðbótarbókunum hans sé kveðið á um bann við handtöku óbreyttra borgara eins og Fedorov.

„Við hvetjum alþjóðasamfélagið að bregðast strax við brottnámi Ivans Fedorov og annarra óbreyttra borgara, og þrýsta á Rússa að binda endi á villimannslegt stríð þeirra gegn úkraínsku þjóðinni,“ segir í yfirlýsingunni.

„Stríðsglæpir Rússa á borð við handtöku borgarstjóra Melitopol eru vandlega skjalfestir af lögregluyfirvöldum. Þeir sem hafa framið þennan glæp sem og aðra glæpi verða dregnir til ábyrgðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert