Utanríkisráðuneyti Úkraínu birti í dag harðorða yfirlýsingu á Facebook þar sem það sagði handtöku rússneskra hersveita á Ivan Fedorov, borgarstjóra Melitopol, vera „stríðsglæp“.
Fyrr í kvöld greindi mbl.is frá því að Fedorov hafi sést á myndbandi vera leiddur af vopnuðum mönnum út úr stjórnarbyggingu í Melitopol í Úkraínu í dag og að hann væri ásakaður um að hafa framið hryðjuverkaglæp.
Utanríkisráðuneytið í Úkraínu segir handtökuna vera „mannrán“ og að hún væri ein af mörgum „grófum brotum rússneskra hersveita á viðmiðum og meginreglum alþjóðalaga, þar á meðal mannúðarlögum“.
Þá benti ráðuneytið á að í Genfarsáttmálanum og viðbótarbókunum hans sé kveðið á um bann við handtöku óbreyttra borgara eins og Fedorov.
„Við hvetjum alþjóðasamfélagið að bregðast strax við brottnámi Ivans Fedorov og annarra óbreyttra borgara, og þrýsta á Rússa að binda endi á villimannslegt stríð þeirra gegn úkraínsku þjóðinni,“ segir í yfirlýsingunni.
„Stríðsglæpir Rússa á borð við handtöku borgarstjóra Melitopol eru vandlega skjalfestir af lögregluyfirvöldum. Þeir sem hafa framið þennan glæp sem og aðra glæpi verða dregnir til ábyrgðar.“