„Svakalegar bombur í allan dag“

Í nágrenni Lúkíanívska lestastöðvarinnar eru fjölmörg hús mikið skemmd eins …
Í nágrenni Lúkíanívska lestastöðvarinnar eru fjölmörg hús mikið skemmd eins og sjá má. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Árásir Rússa á Kænugarð hafa haldið áfram í dag, en reglulega heyrast þar sprengingar og segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari sem búsettur er í borginni, að lætin hafi staðið yfir frá í gærkvöldi. „Það hafa verið svakalegar bombur í allan dag, allan morgun og í alla nótt,“ segir hann og bætir við að flugskeytaárásir inn í borgina hafi aukist svakalega mikið.

Óskar segir að hann og eiginkona sín hafi vaknað klukkan fimm í morgun við gríðarleg læti. Þau hafi hlaupið beint inn á klósett sem sé í raun orðið að þeirra litla sprengjuvarnabyrgi. „Við héldum að það væri verið að sprengja allt í tætlur,“ segir Óskar þegar hann lýstir hávaðanum.

Hann segir sprengingarnar þá hafa verið í um 10 mínútna göngufjarlægð og að það sé nokkuð nær en hingað til. Flest öll flugskeytin eða þær sprengjur sem Rússar senda eru að sögn Óskars þó skotin niður af loftvarnarkerfi borgarinnar.

Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði.
Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eins og stórar áramótasprengjur

Lýsir hann því frá klukkan ellefu í gærkvöldi hafi hávaði frá loftvarnarbombum Úkraínumanna farið að hljóma um alla borgina. „Þetta er eins og stórar áramótasprengjur. Maður heyrir mikinn og þungan hvell þegar þær springa,“ segir hann um drunurnar. Þá hafi einnig bæst við einhverskonar byssuhvellir, sem samt séu mun þyngri en t.d. úr stórum vélbyssum. Segir Óskar að líklega séu það einhverskonar loftvarnarbyssur, en skothríðin stóð yfir í 2-3 mínútur í hvert skipti með þögn á milli.

„Svo heyrir maður allan daginn þyt í þotum. Maður sér þær ekki en maður heyrir í þeim,“ segir hann.

Í dag fór Óskar og skoðaði ummerki eftir sprengingar síðasta sólarhrings sem mátti meðal annars sjá við lestarstöð í nágrenninu. Segist hann hafa fengið þær upplýsingar að loftvarnarkerfi borgarinnar hafi hæft sprengjuna, en að hún hafi sprungið nokkuð lágt á lofti með þeim áhrifum að toppur nokkurra bygginga í kringum þessa lestarstöð skemmdust mikið sem og rúður. „Toppurinn er alveg farinn af einni byggingunni,“ segir Óskar. Borgarstjóri Kænugarðs sagði í dag að fjórir hefðu látist í loftárásunum í nótt.

Í nágrenni lestarstöðvarinnar reyndu verslunareigendur að byrgja upp glugga verslananna …
Í nágrenni lestarstöðvarinnar reyndu verslunareigendur að byrgja upp glugga verslananna sem höfðu sprungið. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Flestir tali um hve illa Rússum gangi

Spurður um stöðu almennings í borginni um þessar mundir segir Óskar að flestir séu að tala um hversu illa Rússum gangi. Hins vegar séu fáir almennt á ferli og þá helst ef fólk þarf í búðir eða þá blaðamenn sem fara á milli svæða.

Segist hann meðal annars hafa rætt við blaðamenn við lestarstöðina í dag og þar hafi flestir verið sammála um að líklegt væri að annar hvor aðilinn myndi mjög fljótlega koma með eitthvað útspil þannig að ekki verði pattstaða eins og gerðist í Donbas-héruðunum þar sem föst lína myndaðist árið 2014.

Segir hann að síðustu sólarhringa hafi úkraínski herinn lagt áherslu á að skjóta á og sprengja birgðalínur Rússa og það hafi valdið því að rússneski herinn hafi lent í vandræðum með að fylla á eldsneyti og að útvega stórskotaliðinu vopn.

Lífið hægt að færast í eðlilegra horf

Lífið virðist þrátt fyrir allt aðeins vera að færast í eðlilegra horf að sögn Óskars, en eftir að íbúar hömstruðu mikið af mat í upphafi stríðsins segir hann að hillur búða séu aftur farnar að fyllast og nóg sé til af helstu nauðsynjum. Þá hafi einnig fleiri búðir opnað á ný sem hafði verið lokað þegar stríðið braust út. „Svo er líka búið að opna kaffihús hér nálægt okkur,“ segir hann.

Varðandi framboð lyfja segir hann að í einhverjum apótekum séu sum lyf búin, en hins vegar hafi verið upplýst að Rauði krossinn sé að koma upp nokkrum stöðum í borginni þar sem hægt verður að fá lyf sem ekki séu til í apótekum og þannig eigi að reyna að tryggja að framboð ákveðinna mikilvægra lyfja sé tryggt.

Í morgun greindu borgaryfirvöld frá því að útgöngubann yrði sett á klukkan átta í kvöld að staðartíma í 36 klukkustundir. Óskar segir að svo virðist sem hugmyndin sé svipuð og síðast þegar sett var á útgöngubann í borginni. Yfirvöld séu að reyna að ná í skemmdarverkamenn á vegum rússneskra yfirvalda, auk þess að gefa hernum færi á að sinna fleiri verkefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert