Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði Úkraínumenn ekki eingöngu vera að verja sitt land fyrir innrás Rússa heldur væru þeir að verja gildi Evrópu og alls heimsins.
Þetta kom fram þar sem Selenskí ávarpaði bandaríska þingið í morgun.
Úkraínski forsetinn vísaði til árásarinnar á Pearl Harbor í seinni heimsstyrjöldinni og árásarinnar á Tvíburaturnana í New York 11. september árið 2001.
Hann sýndi þingmönnunum myndskeið þar sem sjá má eyðilegginguna í Úkraínu og óskaði eftir því að Bandaríkin og NATO kæmu á flugbanni í lofthelgi Úkraínu sem þar með myndu stöðva loftárásir Rússa.
Hann beindi orðum sínum til Joe Biden Bandaríkjaforseta og hvatti hann til að vera leiðtoga friðar í heiminum. Selenskí sagði að hann sæi engan tilgang með lífinu ef hann gæti ekki komið í veg fyrir frekari dauðsföll barna frá Úkraínu.
„Biden forseti, þú ert leiðtogi þinnar þjóðar. Ég vona að þú verðir leiðtogi heimsins en með því verður þú leiðtogi friðar,“ sagði Selenskí.