Um 300 þúsund manns eru nú innlyksa í hafnarborginni Mariupol í Úkraínu þar sem bardagar geisa á götum borgarinnar.
Íbúar hafa búið við rafmagnsleysi í marga daga og eru einnig án rennandi vatns. Þá reynist erfitt að koma mannúðaraðstoð inn í borgina þar sem Rússar hindra inngöngu.
Á vef BBC er greint frá því að nú þegar hafa Rússar sprengt upp kirkju, sjúkrahús og fjölmörg heimili. Gert er ráð fyrir að um 80% íbúðahúsa hafi eyðilagst í sprengingunum, þriðjungur þeirra eru talin vera ónýt.
„Það eru skriðdrekar... og stórskotahríðir og alls konar vopn á svæðinu. Hersveitir okkar eru að gera allt sem þær geta til þess að halda vörnum borgarinnar en óvinurinn er því miður sterkari en við,“ sagði Vadym Boychenko, borgarstjóri Mariupol, í viðtali við BBC.
Þá sagði hann að miðbærinn væri horfinn. „Það er ekki einn blettur sem sýnir ekki merki stríðs.“