Stríð Rússa í Úkraínu er knúið áfram af brjálæði og mun svissneska þjóðin ekki standa á hliðarlínunni á meðan að brotið er gegn grundvallarreglum og gildum siðmenntaðs samfélags. Sviss verður reiðubúið að borga gjaldið sem það kostar að verja frelsi og lýðræði, segir Ignazio Cassis forseti Sviss í pistli sem birtist í dagblaðinu Le Temps.
Sviss, sem hefur lengi framan af haldið sig fjarri hvers kyns viðskiptaþvingunum, hefur ákveðið að beita Rússlandi sömu refsiaðgerðum og Evrópusambandið. Þrátt fyrir það hefur Cassis haldið því fram að hlutleysi þjóðarinnar hafi ekki verið lagt að veði.
Hann taldi þó Sviss ekki geta staðið á hliðarlínunni á meðan átök milli „lýðræðis og villimennsku“ ættu sér stað. Var hann tilbúinn að taka á sig efnahagslegt högg fyrir vikið.
„Þann 24. febrúar breyttist ásýnd heimsins, og ekki á góðan hátt. Við verðum að verja frelsi og lýðræði af kappi. En þetta mun kosta. Gjald sem Sviss er tilbúið að taka á sig,“ skrifaði hann í pistlinum.
„Þetta stríð er knúið áfram af hrikalegu brjálæði sem brýtur grundvallarreglur og gildi okkar siðmenningar.“
Hann sagði að svissneska þjóðin yrði að takast á við umtalsverða verðbólgu og hækkandi orkuverð. Hann taldi þó svissneska gjaldmiðilinn öruggann, gæti það þó bitnað á útflutningi.
„Það er engin töfralausn sem gæti bjargað Sviss frá afleiðingum núverandi ástands,“ sagði Cassis og bætti við að Sviss muni þó ekki koma til með að senda hernaðarstuðning til Úkraínu. Hlutleysi þeirra gæti þó ekki þýtt afskiptaleysi.
„Við getum ekki umborið þetta stríð án þess að bregðast við.“
„Með því að gera ekkert tökum við afstöðu með árásarmanninum.“