Sífellt þykir líklegra að Hvíta-Rússland dragist inn í átökin í Úkraínu og að her landsins ráðist suður yfir landamæri ríkjanna, samkvæmt heimildum fréttastöðvarinnar CNN innan úr NATO og bandaríska stjórnkerfinu.
Heimildir stöðvarinnar innan Hvíta-Rússlands herma að herdeildir þaðan séu tilbúnar að fara inn í Úkraínu, jafnvel á næstu dögum, og þá myndu þúsundir bætast í herlið Rússa í landinu.
„Vladimír Pútín þarf stuðning og allt myndi hjálpa,“ er haft eftir herforingja Atlantshafsbandalagsins.
Annar háttsettur herforingi í NATO sagði Hvít-Rússa vera að undirbúa réttlætingu til að ráðast inn í Úkraínu. Rússar hafa, að hluta til, ráðist inn í Úkraínu frá Hvíta-Rússlandi og þar söfnuðust saman þúsundir hermanna í síðasta mánuði fyrir innrásina, en þá undir því yfirskini að löndin tvö væru með sameiginlegar heræfingar.
Refsiaðgerðir Vesturlanda hafa bæði beinst að einstaklingum í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, og þar með talið forseta Hvíta-Rússlands, Alexander Lúkasjenkó.
Hvíta-Rússland breytti stjórnarskrá sinni í síðasta mánuði svo landið geti nú bæði hýst kjarnorkuvopn og rússneskar herdeildir til frambúðar. Heimildarmenn ítrekuðu þó við CNN að enn væru engar sannanir sem sýndu ótvírætt að Rússar hygðust beita kjarnavopnum.
Einnig var tekið fram að engar sannanir væru heldur á borðinu fyrir að Hvít-Rússar væru tilbúnir til innrásar.
Heimildarmaður CNN segir að endanleg ákvörðun um beina þátttöku Hvíta-Rússlands verði tekin í Moskvu.
„Þetta snýst ekki um hvað Lukasjenkó vill,“ útskýrir hann. „Spurningin er hvort Pútín vilji annað óstöðugt land á svæðið.“
Bætir hann við að þátttaka í stríðinu myndi valda óstöðugleika í Hvíta-Rússlandi.
Hann vildi ekki spá fyrir um hvaðan Hvíta-Rússland myndi ráðast á Úkraínu, en sagði þó að líklegt yrði að teljast að það væri frá vesturhluta landamæranna svo hægt væri að stöðva hernaðaraðstoð NATO til Úkraínu.